fbpx
Sunnudagur 17.ágúst 2025
Fréttir

„Ég mun aldrei gleyma heiftinni sem skein úr andliti hins óþekkta fulltrúa ferðaþjónustunnar“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 16. ágúst 2025 18:00

Sif Sigmarsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sif Sigmarsdóttir, rithöfundur og pistlahöfundur, lýsir óskemmtilegri upplifun sem hún og fjölskylda hennar urðu fyrir á bílastæði við Leifsstöð síðustu jól. 

Fjölskyldan er búsett í London og voru þau á heimleið eftir velheppnaða Íslandsheimsókn. Segir Sif í pistli sínum fjölskylduna hafa setið inni í kyrrstæðum bílaleigubíl, fremst í röð bifreiða sem biðu þess að vera lagt fyrir framan Flugstöðina svo afferma mætti bílana.

„Skyndilega kom maður aðvífandi. Ógnandi í fasi hóf hann að berja í bílinn af afli. „What the f*** is wrong with you,“ öskraði hann aftur og aftur á eiginmann minn sem sat við stýrið.“

Sif segist hafa farið að leita að tökkunum til að læsa bílhurðunum, börnin hafi farið að gráta í aftursætinu og eiginmaður hennar horft gapandi á manninn í gegnum bílrúðuna.

„Það var ekki fyrr en maðurinn tók að banda með hendinni í átt að bílastæðunum að við áttuðum okkur á að stæði hafði losnað í fjarska en við höfðum ekki tekið eftir því. Skelkuð lögðum við bílnum. Þegar óttinn bráði af mér tók reiðin að krauma. Hver var þessi maður og hvað réttlætti svo hörð viðbrögð við saklausri yfirsjón?“

Sif segist hafa gripið símann þegar hún sá manninn stíga upp í rútu, hún hafi ætlað að ná mynd af manninum og bílnúmeri rútunnar. Það hafi þó ekki tekist. 

„Svo virtist sem röð einkabílanna í „fimm-mínútna-ástvina-affermingarstæðin“ hefði teppt veg rútunnar um bílastæðið. Var maðurinn bílstjóri rútunnar? Leiðsögumaður? Ég veit það ekki. En fyrir mér fangaði atvikið þá óhóflegu spennu sem komin er í ferðamennsku á Íslandi. Tími er peningar. Hver sekúnda sem fer til spillis er gull sem gloprað er niður.

Á bílastæðaplani Leifsstöðvar var ég tákngervingur hins innfædda aula, einfeldningurinn sem hélt að túrisminn væri til fyrir okkur. Svo virðist hins vegar sem við séum til fyrir túrismann og í mínu tilfelli var ég fyrir túrismanum.

Ég mun aldrei gleyma heiftinni sem skein úr andliti hins óþekkta fulltrúa ferðaþjónustunnar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt