Stefán Bogi Sveinsson, héraðsskjalavörður hjá Héraðsskjalasafni Austfirðinga og leiðsögumaður, vakti í gær athygli á skemmdarverkum í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum þar sem hann er búsettur.
Segir Stefán að svo virðist sem skemmdarfýsn hafi ráðið og töluvert afl þurft til, hvimleitt sé að sjá að fólk geti ekki látið sameiginlegar eigur í friði.
„Það var hundleiðinleg aðkoma í rjóðrinu í Tjarnargarðinum í kvöld. Það er ekki annað að sjá en að þarna hafi afar einbeitt skemmdarfýsn ráðið för og fjandi hvimleitt að einhverjir skuli ekki geta séð sameiginlegar eigur okkar allra í friði. Er það virkilega svo að foreldrar þarna úti séu algjörlega grandalaus um að synir þeirra gangi hér um og brjóti og bramli (já ég gef mér að þetta séu drengir og ég gef mér að þeir séu lögum samkvæmt á barnsaldri, það þyrfti að segja mér það þrisvar ef um annað er að ræða í tilfelli eins og þessu)?? Það hefur þurft að hafa ansi mikið fyrir þessu. Hvernig væri nú að ganga aðeins á strákana um hvað þeir eru að dunda sér á kvöldin?“
Með færslu sinni í Facebook-hópnum Íbúar Fljótsdalshéraðs birtir Stefán með myndir.
Tjarnargarðurinn er lítill garður í hjarta Egilsstaða. Kjörinn staður til að njóta verursældarinnar í skjóli trjánna, fara í lautarferð og allskyns leiki eða hreinlega slaka á og lesa bók. Einnig er Frisbee golfvöllur í garðinum sem er kjörin afþreying fyrir alla aldurshópa, eins og segir á vef Austurlands.
Í samtali við DV segir Stefán að ekkert sé að frétta af málinu.