Sjúkratryggingar Íslands, Klíníkin Ármúla ehf. og Stoðkerfi ehf. í samstarfi við Læknahúsið DEA Medica hafa gert með sér samning um framkvæmd liðskipta-, bak-, kviðsjár-, og brjóstaminnkunaraðgerða með greiðsluþátttöku sjúkratrygginga til næstu þriggja ára. Heilbrigðisráðherra, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og forsvarsmenn þjónustuveitenda staðfestu samninginn í höfuðstöðvum SÍ í dag. Bætt aðgengi sjúklinga að nauðsynlegri þjónustu, skýrari umgjörð hennar og stytting biðlista eru helstu markmið samningsins segir í tilkynningu.
„Ég tel þetta góða og skynsamlega samninga þar sem hagsmunir sjúklinganna, gæði þjónustunnar, skilvirkni og hagkvæmni eru í fyrirrúmi. Þetta eru jafnframt fyrstu heildstæðu langtímasamningarnir um þessa þjónustu. Það skapar sjúklingum og þjónustuveitendum aukinn fyrirsjáanleika sem er ótvíræður hagur beggja. Fyrst og síðast er markmiðið að stytta biðlista og þar með bið sjúklinga eftir þessum mikilvægu og lífsbætandi aðgerðum“ segir Alma D. Möller heilbrigðisráðherra. „Þá munum við, í tengslum við þennan samning, leggja áherslu á að einfalda kerfið, auka skilvirkni og tryggja jafnræði gagnvart sjúklingum, meðal annars að þeir komist hindrunarlaust inn á miðlægan biðlista þegar faglegt mat sérfræðilæknis liggur fyrir.“
Samningarnir eru gerðir að undangengnu opnu innkaupaferli. Kveðið er á um hvernig fjármagn skiptist hlutfallslega á milli þjónustuveitenda og enn fremur um hlutfallslega skiptingu fjármagns milli aðgerðaflokka samkvæmt viðmiðum SÍ sem endurskoðuð eru árlega. Miðað við fyrirliggjandi fjármagn tryggja samningarnir um 1.000 aðgerðir á ársgrundvelli, þar af um 600 liðskiptaaðgerðir, um 170 bakaðgerðir, 170 kviðsjáraðgerðir og 60 brjóstaminnkunaraðgerðir. Í samningunum felst sveigjanleiki sem gerir kleift að fjölga aðgerðum innan hvers árs, fáist til þess auknar fjárveitingar, og þarf ekki að semja um það sérstaklega. Eins er hægt að beina auknu fjármagni í tiltekna aðgerðaflokka umfram aðra ef þess gerist þörf.
Sigurður Helgi Helgason forstjóri SÍ segir samningana mikilvæga og fela í sér aukið umfang skurðaðgerða utan heilbrigðisstofnana: „Með þeim er almenningi tryggt bætt aðgengi að brýnni þjónustu, sem mun stytta biðlista og létta álagi af Landspítala og öðrum sjúkrahúsum. Með langtímasamningum tryggjum við meiri stöðugleika og við höfum stigið mikilvæg skref til að treysta gæði og umgjörð þjónustunnar.“
Samningsaðilar skipa með sér samstarfsnefnd sem fjallar meðal annars um þjónustuþörf og stöðu biðlista, forgangsröðun, aðgerðatækni og miðlun sjúklinga í aðgerðir. Í samningnum er sérstaklega er kveðið á um að almennt skuli þeir aðilar sem framkvæma aðgerðir á grundvelli samningsins ekki gera aðgerðir af sama tagi án greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. Ef brýn nauðsyn krefst getur þjónustuaðili þó sótt um undanþágu til SÍ frá þessu ákvæði sem afgreidd er í ljósi þess hvort undanþágubeiðnin byggi á málefnalegum sjónarmiðum.