„Þetta voru stormasöm ár, ég var ekki stilltur unglingur, gerði allt sem ég átti ekki að gera. Mér gekk vel í skóla en fór að sækja aðra athygli en að einbeita mér að náminu. Þarna eru nokkur ár og ég hugsa enn hvað ég var hræðileg við foreldra mína,“ segir baráttukonan Sema Erla Serdaroglu í viðtalsþættinum „Segðu mér“ á Rás 1. Fjallað er um efni þáttarins á vef RÚV.
Þegar Sema Erla var í tíunda bekk grunnskóla var hún send í neyðarvistun á meðferðarheimilið Stuðla. Það var vendipunktur og segist hún eftir þetta hafa ákveðið að láta af óæskilegri hegðun.
Sema Erla er hvað þekktust fyrir starf sitt að málefnum flóttamanna í gegnum hjálparsamtökin Solaris. Hún hefur lengi búið við miklar hótanir og áreitni frá fólki sem virðist í nöp við þann málstað sem hún hefur haldið á lofti. Um þetta segir hún meðal annars í viðtalinu:
„Þetta hefur fylgt mér svo lengi, eiginlega öll mín fullorðinsár. Um daginn fék ég sms hálffjögur um nóttina sem var ógeðfellt …. Flest af þessu á sameignlegt að það er ekki verið að tala um það sem ég er að segja eða gera, gagnrýna það heldur eru þetta persónuárásir. Þær taka á sig alls konar myndir.“
Hún segist ekki venjast þessu ofbeldi: „Það er oft talað um að maður venjist svona en ég neita þeirri hugmyndafræði. Þetta er eitthvað sem enginn á að venjast. Enginn á að þurfa að venjast og hvað þá lifa með þessu í langan tíma.“
Hún segist hins vegar staðráðin í að láta þessar árásir ekki stoppa sig: „Ég er þannig gerð að ég er ekki að fara að láta þagga niður í mér og ýta mér út úr umræðunni því það skiptir máli að fólk sem leitar hingað í leit að skjóli og vernd fái mannúðlegar móttökur. Þarna erum við með hóp sem á erfitt með að verjast pólitískum árásum og öðru slíku, og þarf okkar aðstoð við það. Svo er ég rosalega þrjósk og er ekkert að fara að leyfa þessum hópi að vinna, það er bara þannig.“
Sjá nánar hér.