Í gærkvöldi, sunnudagskvöld, barst Neyðarlínu aðstoðarbeiðni frá ferðamönnum sem höfðu um morguninn farið í göngu á Búlandstind ofan Djúpavogs.
Þau höfðu ætlað að vera komin niður milli kl. 13 og 14 en upp úr kl. 20 um kvöldið voru þau enn í fjallinu og töldu sig ekki komast lengra. Sex göngumenn frá björgunarsveitnni Báru komu göngufólkinu til hjálpar en í fréttatilkynningu frá Landsbjörg um málið segir:
„Björgunarsveitin Bára á Djúpavogi var boðuð út í fyrstu og í kjölfarið voru björgunarsveitir á öllu Austurlandi frá Höfn norður í Neskaupstað, kallaðar út því þá leit út fyrir að verkefnið þyrfti sérhæft fjallabjörgunarfólk.
Sex göngumenn frá Báru héldu á fjallið inn Búlandsdal ásamt því að dróni var settur í loftið til að staðsetja fólkið.
Hópurinn fannst fljótlega og þá lá ljóst fyrir að ekki þyrfti sérhæft fjallabjörgunarfólk í verkefnið og aðrar sveitir afboðaðar í kjölfarið. Gönguhópurinn frá Báru hélt áfram að fólkinu þar sem þeim var fylgt niður. Einn úr hópnum fékk aðhlynningu á heilsugæslunni á Djúpavogi, eftir lítið fall. Aðgerðum á Djúpavogi var lokið rétt fyrir 23:30.“
Fyrr um daginn barst tilkynning frá litlum fiskibáti með bilað drif. Björgunarskipið Jón Gunnlaugsson á Akranesi hélt út til aðstoðar og var fiskibáturinn þá staddur rúmlega 30 sjómílur norð-vestur af Akranesi. Rétt fyrir klukkan 19 var búið að koma taug á milli og stefnan sett inn til hafnar á Akranesi. Þangað var björgunarskiptið komið með bátinn í togi rétt fyrir 23.
Í tilkynningunni segir einnig:
„Björgunarsveitir sinntu fleiri verkefnum þennan sunnudag þegar björgunarsveitin Lífsbjörg í Snæfellsbæ var boðuð út til að aðstoða við að koma grindhvalavöðu út úr höfninni á Rifi. Þegar björgunarsveitarfólk kom á vettvang var fólk komið að á bát til að stugga við vöðunni og björgunarsveitarfólk hélt út á gúmbát til að stugga við vöðunni lengra út sem gekk vel.“