fbpx
Sunnudagur 10.ágúst 2025
Fréttir

Þetta eru flugleiðirnar þar sem oftast má búast við ókyrrð

Ritstjórn DV
Föstudaginn 8. ágúst 2025 18:30

Ókyrrðin í flugvél Delta á dögunum var mjög mikil eins og sjá má.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þeir sem hafa farið í flugvél hafa vafalítið flestir lent í ókyrrð af einhverju tagi. Þó að upplifun af ókyrrð geti verið óþægileg, eru góðu fréttirnar þær að slys í flugi vegna ókyrrðar eru afar sjaldgæf. Að spenna á sig öryggisbelti kemur næstum alltaf í veg fyrir alvarleg meiðsl. Slæmu fréttirnar eru hins vegar þær að vísindamenn telja að tilfellum ókyrrðar í flugi muni fjölga samhliða hlýnandi loftslagi.

CNN fjallar á vef sínum um flugleiðirnar í heiminum þar sem farþegar geta oftast búist við ókyrrð.

Á Vísindavefnum er ókyrrð í háloftunum útskýrð þannig að um sé að ræða óreglulega hreyfingu lofts. Hana sé helst að finna þar sem er mikið vindsnið, það er vindhraði breytist hratt. Ókyrrð megi líka finna nálægt skúraklökkum þar sem skýjatoppar þeirra geta náð allt upp að veðrahvörfum. Þá geti myndast ókyrrð yfir yfirborði sem hitnar mikið á sólríkum dögum og við fjöll.

Skoðuðu yfir 10 þúsund flugleiðir

Í umfjöllun CNN eru rifjuð upp nýleg dæmi um verulega ókyrrð í lofti, til dæmis í flugi Delta frá Salt Lake City til Amsterdam í síðustu viku. Vélin lenti í mikilli ókyrrð og óttuðust margir farþegar að hún væri að hrapa. Farþegar köstuðust upp í loftið og voru að lokum 25 manns fluttir á sjúkrahús eftir að vélinni var lent í Minneapolis.

Frétt CNN vísar til vefsíðunnar Turbli, sem sérhæfir sig í spám um ókyrrð, og hefur greint meira en 10 þúsund flugleiðir með gögnum frá stofnunum eins og bandarísku haf- og loftslagsstofnuninni og bresku veðurstofunni.

Ókyrrðin oftast við há fjöll

Samkvæmt upplýsingum Turbli er flugleiðin á milli Mendoza í Argentínu og Santiago í Chile, yfir Andesfjöllin, sú flugleið þar sem oftast má búast við ókyrrð. Ákveðið mynstur sést í gögnum Turbli því þær tíu flugleiðir þar sem búast má við mestri ókyrrð liggja allar yfir háreistum fjallgörðum.

Mynd: Turbli/CNN

„Fjallgarðar eru í raun stórar og óhreyfanlegar hindranir sem breyta loftstraumnum. Þeir geta myndað loftbylgjur sem berast hundruð kílómetra. Þegar þessar bylgjur brotna valda þær mikilli ókyrrð, líkt og sjávarbylgjur sem brotna í sjónum,“ segir Gallego Marcos, verkfræðingur og stofnandi Turbli.

Í Bandaríkjunum má búast við mestri ókyrrð yfir Klettafjöllum, til og frá Denver og Salt Lake City. Svipað er upp á teningnum í Evrópu, þar sem mest ókyrrð er yfir Alpafjöllum, til dæmis þegar vélar fljúga milli Frakklands, Ítalíu og Sviss. Í Asíu er mest ókyrrð á svæðinu í kringum Himalæjafjöllin.

Tilfellum virðist fjölga

En eins og að framan greinir eru það ekki bara fjöll sem stuðla að ókyrrð. Annað fyrirbæri, svokölluð heiðkvika (e. clear-air turbulence), á sér stað á skýlausum himni og stafar af hröðum breytingum á vindhraða eða vindátt.

Í frétt CNN er rætt við Piers Buchanan, sérfræðing hjá bresku veðurstofunni, sem segir að þessi tegund ókyrrðar geti verið hættuleg vegna þess hversu óútreiknanleg hún er og erfitt sé að spá fyrir um hana. Rúmlega 500 kílómetra leiðin á milli japönsku borganna Natori og Tokoname er af þessum sökum ein þeirra leiða í Asíu þar sem mest má búast við ókyrrð.

Þessi tegund ókyrrðar virðist vera að aukast ef marka má rannsókn sem CNN vísar til. Loftslagsbreytingar auka hitamun í efri lögum lofthjúpsins sem gerir vindhraða óstöðugri og veldur þar með meiri ókyrrð. Þessi tegund ókyrrðar var til dæmis 55% algengari yfir Norður-Atlantshafi – einni fjölförnustu flugleið heims – árið 2020 miðað við árið 1979. Sama rannsókn gaf einnig til kynna 41% aukningu yfir meginlandi Bandaríkjanna á sama tíma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lexí boðið að selja blíðu sína þegar hún óskaði eftir aðstoð vegna hundsins síns – „Hvað er langt síðan þú stundaðir kynlíf?“

Lexí boðið að selja blíðu sína þegar hún óskaði eftir aðstoð vegna hundsins síns – „Hvað er langt síðan þú stundaðir kynlíf?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir að FBI muni elta Demókratana frá Texas uppi

Segir að FBI muni elta Demókratana frá Texas uppi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur fengið nóg og vill verðlækkanir – „Þegar krónan veikist hækka verðin strax“

Vilhjálmur fengið nóg og vill verðlækkanir – „Þegar krónan veikist hækka verðin strax“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Flosi ómyrkur í máli um árin í ferðaþjónustunni – „Mér þótti yfirmenn mínir oft hegða sér undarlega“

Flosi ómyrkur í máli um árin í ferðaþjónustunni – „Mér þótti yfirmenn mínir oft hegða sér undarlega“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Maðurinn sem reyndi að ræna Önnu prinsessu segist saklaus – „Ég var hræddari en hún“

Maðurinn sem reyndi að ræna Önnu prinsessu segist saklaus – „Ég var hræddari en hún“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Gufunesmálið – Reynt að láta 19 ára pilt taka á sig alla sökina

Gufunesmálið – Reynt að láta 19 ára pilt taka á sig alla sökina