Það stefnir í frábært sumarveður á höfuðborgarsvæðinu á morgun þegar Gleðigangan, hápunktur Hinsegin daga, fer fram.
Ef marka má sjálfvirkt spákort Veðurstofu Íslands verður heiðskýrt og 14 stiga hiti um hádegi á morgun og hlýnar aðeins með degi og verður 15 stiga hiti þegar gangan hefst klukkan 14:00. Það verður hægviðri, um fjórir metrar á sekúndu.
Gengið verður af stað frá Hallgrímskirkju og eftir Skólavörðustíg, Bankastræti, Lækjargötu og Fríkirkjuvegi.
Gangan endar svo við gatnamót Fríkirkjuvegar og Skothúsvegar en atriði halda svo áfram inn Sóleyjargötu og inn í Hljómskálagarðinn þar sem útitónleikar fara fram.