Norska Dagbladet fékk breska Rússlands-sérfræðinginn og rithöfundinn Mark Galeotti til að benda á þann sem teljist líklegastur til að taka við völdum af Pútín þegar sá tími kemur.
Galeotti benti í upphafi á að ákveðin mótsögn sé innan rússneska valdakerfisins því það virðist nánast útilokað að Pútín láti af völdum og þörf sé á arftaka hans en samt sem áður sé þetta svolítið sem fólk innan stjórnkerfisins hugsi stöðugt um.
Tæknilega séð er það Mikhail Mishustin, forsætisráðherra, sem tekur við forsetaembættinu ef Pútín hrekkur skyndilega upp af. Lög kveða á um þetta og einnig að boða skuli til kosninga mjög fljótlega eftir að forsetinn deyr.
Galeotti sagði að þrátt fyrir að Mishustin sé næstur í röðinni samkvæmt lögum, þá hafi hann varla í huga að taka við sem forseti til framtíðar.
Þess í stað verði að horfa á innsta hring Pútíns til að finna líklegri kandídat sem taki við til langs tíma.
Hann sagðist telja að það verði kynslóðaskipti og að yngri maður, líklega á sextugs- eða sjötugsaldri, muni taka við embættinu.
Sagði hann að þar komi Dmitry Patrusev, aðstoðarlandbúnaðarráðherra, sterklega til greina en faðir hans er Nikolai Patrusev, sem er einn af nánustu samstarfsmönnum Pútíns.
Dmitry er sagður tækifærissinni sem lætur hugmyndafræði ekki knýja sig áfram, heldur lagi sig að hinu pólitíska andrúmslofti hverju sinni.