Abdullah hafði látið breskum yfirvöldum allt í té – myndir af fjölskyldunni, heimilisfang sitt, skjöl með nöfnum og fæðingardögum. Þetta gerði hann í kjölfar valdatöku Talibana í Afganistan 2021 þegar hann sótti um að verða fluttur frá landinu af því að hann hafði starfað fyrir breska herinn og mikil hætta var á að hann yrði fórnarlamb hefndaraðgerða.
En Abdullah komst aldrei til Englands. Hálfu ári síðar fékk hann kort með skilaboðum um að upplýsingunum, sem hann hafði sent, hefði verið lekið. Honum var ráðlagt að loka samfélagsmiðlum sínum, ekki svara hringingum úr ókunnugum númerum og ekki opna dyrnar ef einhver bankaði.
„Fólkið, sem ég treysti fyrir öryggi mínu, hefur nú stefnt lífi mínu í hættu,“ sagði hann í samtali við The Guardian úr felustað sínum í Afganistan.
Hann er ekki einn um að hafa lent í þessu því gögnum tæplega 19.000 Afgana var lekið í því sem nú er talið vera ein mestu stjórnsýslumistök síðari tíma í Bretlandi.
Það gerir málið eiginlega enn ótrúlegra að almenningur fékk ekki að vita um þetta. Þess í stað hratt ríkisstjórnin háleynilegri áætlun úr vör til að reyna að lágmarka tjónið.
Hættuleg mistök
Það var ekki fyrr en nú í sumar sem breskir fjölmiðlar fjölluðu um málið. Þá kom fram að í febrúar 2022 hafi starfsmaður varnarmálaráðuneytisins ætlað að senda upplýsingar, um það sem hann hélt vera 150 afganska umsækjendur um þátttöku í sérstakri áætlun um brottflutning afganskra samstarfsaðila breska hersins, til nokkurra aðila.
En þess í stað sendi hann skjal sem innihélt upplýsingar um tæplega 18.700 Afgana og fjölskyldur þeirra.
Þetta uppgötvaðist ekki fyrr en hálfu öðru ári síðar þegar ónafngreindur notandi deildi skjáskoti af þessu í Facebookhópi afganskra hælisleitenda.
Mikil örvænting greip strax um sig meðal breskra ráðuneyta og leyniþjónustustofnana.
The Independent hefur eftir embættismanni að staðan hafi verið „hrollvekjandi“.
Óttast var að Talibanar hefðu fengið dauðalista sendan beint frá Lundúnum.
En í staðinn fyrir að láta þá sem hlut áttu að máli vita, ákvað ríkisstjórnin að hrinda háleynilegri áætlun af stað til að hilma algjörlega yfir málið.
Með vísan til þeirrar hættu sem Afgönunum stóð af Talibönum leitaði ríkisstjórnin til dómstóla og krafðist algjörs banns við fjölmiðlaumfjöllun um málið og þess að banninu yrði haldið algjörlega leyndu.
Um leið var byrjað að hraða afgreiðslu umsókna frá Afgönunum til að hægt yrði að bjarga lífi þeirra áður en Talibanar kæmust á snoðir um málið.
Ótrúleg kaldhæðni
Á bak við tjöldin reyndu embættismenn að finna leiðir til að flytja mörg þúsund manns til Englands án þess að það vekti athygli.
Það var í tengslum við þessa vinnu sem hugmyndin um nýja áætlun, Afghan Resttlement Programme (ARP), varð til.
Þessi áætlun átti að ná til rúmlega 42.000 manns, 28.500 þeirra komu beint við sögu í gagnalekanum.
Kostnaðurinn var áætlaður 7,2 milljarðar punda.
En eftir því sem á leið fylltust dómararnir, sem komu að málinu, efasemdum. „Er ég að missa vitið?“ spurði einn þeirra í dómsal þegar hann heyrði að ríkisstjórnin ætlaði að láta þingið fá skáldað sögu til að hylma yfir verkefnið. The Independent skýrir frá þessu.
Ætlunin var að hafa „fulla stjórn á sögunni“, þannig að skýrt yrði frá umfanginu en ekki ástæðunni.
Lögmannsstofan, sem annast mál rúmlega 1.000 Afgana, segir að sumir á listanum hafi nú þegar verið drepnir og aðrir séu í felum.
Sara de Jong, prófessor og stofnandi Sulha Alliance, sem hjálpar fyrrum afgönskum starfsmönnum breska hersins, segir stöðuna „mjög alvarlega“.
„Það er ótrúleg kaldhæðni að breska ríkisstjórnin þurfi að bjarga Afgönum frá eigin gagnaleka í staðinn fyrir að hafa þá, sem eru aðalskotmörk Talibana, í forgangi,“ sagði hún í samtali við The Guardian og bætti við að öllum þeim peningum og kröftum sem fóru í að leyna mistökunum hefði betur verið eytt í annað.
Leyndinni aflétt
Málið kom upp í sumar í kjölfar þess að ríkisstjórnin ákvað að láta gera nýja áhættugreiningu vegna málsins.
Niðurstaðan var að Talibanar hefðu aðgang að miklu magni gagna og það eitt að nafn væri á breska listanum væri ekki nægilega alvarlegt til að viðkomandi væri í lífshættu.
Það er mikil kaldhæðni fólgin í því að leyndarhjúpur ríkisstjórnarinnar gerði listann verðmætari en annars hefði verið.
Öllum hömlum á umfjöllun um málið var aflétt og breskur almenningur fékk loksins vitneskju um málið.
Fram hefur komið að búið er að flytja 16.000 Afgana til Bretlands með leynd. 7.900 til viðbótar eru reiðubúnir til brottflutnings. 4.500 af þeim hefðu ekki átt rétt á brottflutningi ef ekki hefði verið fyrir gagnalekann.
En það versta er að mörg þúsund manns, sem störfuðu með vestrænu herliðunum, heyrðu aldrei neitt frá breskum yfirvöldum. Sumir komust fyrst að því í sumar að upplýsingum um þá hefði verið lekið.
Einn þeirra skrifaði varnarmálaráðuneytinu og sagði: „Við eru enn á lífi, þökk sé heppni og útsjónarsemi. En þetta er eins og að lifa í opinni gröf. Við biðjum ykkur um að stöðva þessa martröð.“