Íslenskur maður sem situr í gæsluvarðhaldi í Hollandi, grunaður um að hafa reynt að smygla inn til landsins um 6 kg af kókaíni, tók gífurlega áhættu er hann fór með efnin inn í landið, hugsanlega miklu meiri áhættu en hann gerði sér grein fyrir. Með manninum í för var sonur hans á táningsaldri.
DV greindi frá málinu á miðvikudag:
„Íslenskur faðir á fimmtugsaldri var í júnílok handtekinn á Schiphol-flugvelli, í nágrenni Amsterdam, grunaður um umfangsmikinn innflutning á kókaíni. Með í för var sonur mannsins á táningsaldri sem þurfti að horfa upp á handtöku föður síns.
Feðgarnir voru að millilenda í Hollandi eftir sumarfrí á fjarlægari slóðum. Samkvæmt heimildum DV var maðurinn stöðvaður við komuna til Hollands og reyndist hann hafa um 6 kílógrömm af kókaíni í fórum sínum.
Sonur mannsins þurfti síðar að fljúga einn heim á leið til Íslands.
Í svari við fyrirspurn DV til saksóknaraembættis Norður-Hollands, sem fer með málið, kemur fram að faðirinn hafi setið í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn. Ráðgert er að hann verði fljótlega leiddur fyrir þarlendan dómara þar sem málið gegn honum verður þingfest. Dagsetning liggur þó ekki fyrir.
Fyrirspurnir DV til íslenskra yfirvalda hafa leitt í ljós að málið hefur ekki enn ratað á þeirra borð. Reikna má með því að það breytist á seinni stigum málsins.
DV hefur ekki upplýsingar um að maðurinn hafi áður komið við sögu lögreglu.“
Samkvæmt heimildum DV voru feðgarnir í fríi í Karabíska hafinu á einni af eyjunum sem tilheyra Hollandi. Þrjár eyjar þar eru skilgreindar sem sjálfstjórnarríki hollenska konungsdæmisins, Aruba, Curacao og Sint Maarten, auk þess sem þrjár aðrar eyjar tilheyra Hollandi beint, Bonaire, Sint Eustatius og Saba. Allir íbúar þessara eyja eru hollenskir ríkisborgarar og því gildir frjálst flæði fólks, vöru og þjónustu milli þeirra og Hollands. Þetta, sem og nálægðin við Suður-Ameríku, gerir eyjarnar að eftirsóttum viðkomustöðum fyrir eiturlyfjasmygl inn í Evrópu – sem hefur leitt til harðra toll- og öryggisaðgerða – og gert það að verkum að yfirvöld í Hollandi hafa ítrekað stöðvað stórfelldar smygltilraunir á flugvöllum eins og Schiphol og í höfnum í Rotterdam og Antwerpen. Eyjarnar eru skilgreindar sem áhættusvæði varðandi smygl og því þurfa allir farþegar að undirgangast umfangsmikið eftirlit við komuna til Hollands. Það þýðir að ferðatöskur sem og handfarangur er gegnumlýstur, farþegar ganga í gegnum líkamsskönnunartæki við komuna til landsins og eru jafnvel teknir í viðtöl, auk þess sem fíkniefnahundar eru brúkaðir. Aðgerðirnar hafa gert það að verkum hin síðari ár að eiturlyfjasmygl í farþegaflugum frá Karabísku eyjunum til Hollands hefur minnkað töluvert og smyglarar eflaust snúið sér að öðrum áhættuminni leiðum.
Alls er óvíst hvort íslenska föðurnum var kunnugt um þetta, en ef svo var, þá var hann meðvitað að taka gífurlega áhættu og það með son sinn með sér. Telja má mjög líklegt að endanlegur áfangastaður efnanna hafi verið Ísland og maðurinn hafi ætlað að flytja efnin áfram með sér þangað. Hann var hins vegar handtekinn við komu feðganna til Hollands, á Schiphol flugvelli. Nokkru síðar flaug sonurinn einn heimleiðis til Íslands en faðirinn varð eftir í Hollandi, þar sem hann situr í gæsluvarðhaldi og bíður þess að verða kallaður fyrir dómara.
Samkvæmt heimildum DV er maðurinn 47 ára gamall. Hann hefur DV vitanlega ekki sakaferil að baki. Hann er ekki þekktur í samfélaginu en hefur þó komið að atvinnurekstri og verið í fjölmiðlaviðtölum vegna þess.
Sonurinn er 16 ára gamall og verður 17 ára síðar á þessu ári. Af þeim sökum má gera ráð fyrir því að málið komi til kasta barnaverndaryfirvalda hér á landi. En síðast þegar DV kannaði var íslenskum yfirvöldum með öllu ókunnugt um atvikið.
Samkvæmt upplýsingum frá héraðssaksóknara í Norður-Hollandi hefur manninum verið ráðinn hollenskur verjandi. Ekki eru veittar upplýsingar um hver það er.
Samkvæmt refsiramma hollenskra hegningarlaga má íslenski faðirinn eiga von á yfir tveggja ára fangelsi. Miðað er við fimm ára fangelsi fyrir innflutning á 6 kg af hörðum fíkniefnum en ef um fyrsta brot er að ræða getur refsingin farið niður í 26 mánaða fangelsi.