fbpx
Föstudagur 18.júlí 2025
Fréttir

Sex börn Karls Erons í losti eftir að hafa lesið dánartilkynningu Moggans eftir útför hans – „Við vorum ekkert látin vita“

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 18. júlí 2025 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gærmorgun brá börnum Karls Erons Sigurðssonar verulega í brún þegar þau lásu um andlát hans í dánartilkynningu í Morgunblaðinu. Karl Eron hafði dáið tíu dögum áður en ekkert af börnum hans var látið vita. Þau vissu ekki einu sinni af veikindum föðurins né sjúkrahúslegu hans fyrir andlátið. Að lesa um andlát föðursins var nægt áfall en ekki bætti úr skák að jarðarför Karls Erons var yfirstaðin þegar tilkynningin birtist á síðum dagblaðsins og því fengu systkinin ekki tækifæri til að kveðja föður sinn. Systkinin eru í losti og íhuga nú hvaða skref þau taka næst og hvort að einhverjar reglur séu ekki í gildi um að börnum sé tilkynnt um andlát foreldra sinna.

Vita ekki banamein föður síns

„Við höfðum ekki hugmynd um að hann væri látinn. Við vorum ekkert látin vita,“ segir Hrefna Hrund Eronsdóttir, dóttir Karls Erons.

Eins og systkini sín las Hrefna um andlát föður síns í dánartilkynningu í Morgunblaðinu fimmtudaginn 17. júlí. Kom þar fram að Karl Eron hefði látist á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og að útförin hefði farið fram í kyrrþey að hans ósk. Eini aðstandandinn sem var skráður fyrir tilkynningunni var Bjarnlaug Helga Daníelsdóttir, ekkja Karls Erons.

Seinna komust systkinin að því að faðir þeirra hefði látist 8. júlí, tíu dögum fyrir tilkynninguna. Þau vissu ekki hvað var hans banamein eða hvar hann væri grafinn. Ein systirin hringdi í Selfosskirkju og fékk þau svör að hann væri grafinn í kirkjugarðinum á Selfossi. Engin tilkynning barst til systkinanna þrátt fyrir að þau væru skylduerfingjar Karls Erons.

Sárt út af fötluðum bróður

Einn bróðirinn er andlega fatlaður og býr á sambýli. Hann var afar hændur að föður sínum og oft inni á heimilinu.

„Þetta er sérstaklega sárt út af fötluðum bróður okkar sem hann er búinn að vera að heimsækja,“ segir Hrefna en eftir samtal við blaðamann var hún á leiðinni í erfiða ferð að segja bróður sínum frá láti pabba síns.

Erfiðleikar í fjölskyldunni

Karl Eron var 84 ára gamall, fæddur 3. desember árið 1940. Hann bjó með Bjarnlaugu Helgu á Selfossi en þau höfðu verið saman í um 40 ár. Karl Eron átti sex börn úr fyrra sambandi, tvö af þeim ekki blóðskyld, og Bjarnlaug þrjú börn. Engin börn áttu þau saman.

Sambandið var stirt á milli barna Karls Erons og Bjarnlaugar að sögn Hrefnu en sambandið þeirra við Karl Eron var sveiflukennt.

„Hann var aldrei neinn fyrirmyndarpabbi. Ekkert mikið í samskiptum við okkur en samt alltaf eitthvað,“ segir hún. „Það var ofbeldi á heimilinu þegar við vorum lítil. Ég nefndi það einhvern tímann við hann og hann reiddist og samskiptin minnkuðu. En hann var pabbi okkar fyrir það.“

Mögulega með heilabilun eftir áfall

Mikil vatnaskil urðu fyrir 2 eða 3 árum þegar Karl Eron fékk alvarlegt hjartaáfall. Hann dó en var endurlífgaður og var haldið sofandi í marga daga. Eftir að hann vaknaði var hann breyttur maður að sögn Hrefnu.

„Hann dó og var lífgaður við og var ekki hann sjálfur eftir það. Hann var með ranghugmyndir,“ segir hún. Hann hafi oft verið erfiður við börnin sín eftir þetta áfall. Hugsanlega hafi hann verið kominn með heilabilun en þau fengu þó engar upplýsingar um það. „Annað hvort samtal við hann hefur verið gott,“ segir Hrefna.

Hrefna vill fá svör um hvar tilkynningarskyldan liggi. Hún fékk ekki að kveðja föður sinn.

Eins og áður segir vita systkinin ekki hvert var banamein föður síns. Þau vissu ekki að hann væri veikur og kominn á spítala. Þau vissu að hann hafði glímt við krabbamein en ekki hvers konar eða á hvaða stigi það var.

Hvar er tilkynningarskyldan?

Næstu skref hjá systkinunum er að fá upplýsingar um málið. Hvar tilkynningarskyldan sé eða hvort hún sé yfirleitt til staðar. Því að ef Bjarnlaug hefði ekki tilkynnt andlátið í Morgunblaðinu þá væru þau sennilega enn þá grandlaus um að faðir þeirra væri látinn. Málið lúti ekki aðeins að erfðum. Það sé fyrst og fremst tilfinningalegt mál. Það hafi verið mjög sárt að sjá dánartilkynninguna í Morgunblaðinu, eins og um væri að ræða fjölskyldulausan mann.

Kerfin tala ekki saman

Hrefna leitaði svara hjá embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu fyrr í morgun en var þaðan vísað áfram á Sýslumanninn á Suðurlandi þar sem andlátið átti sér stað í því umdæmi og þangað ætlar hún að leita.  En almennt fékk Hrefna þau svör frá sýslumanni að það væri í höndum erfingja að tilkynna hverjir erfingjarnir væru. Sýslumannsembættin hefðu enga lista líkt og Þjóðskrá yfir skyldmenni og þessar tvær ríkissstofnanir deila ekki upplýsingum sín á milli í málum sem þessum.

DV hafði samband við Bjarnlaugu Helgu en hún vildi ekki tjá sig um málið. Gunnar Jóhannsson, prestur, var sá sem sá um greftrun Karls Erons og leitaði DV þangað eftir svörum um hvernig málum sem þessum sé háttað hjá Þjóðkirkjunni. Gunnar bað um skriflegar spurningar vegna málsins og hafa svör ekki enn borist.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt