Kona lagði tryggingafélagið VÍS fyrir dómi til að fá greiddan kostnað við að fá lögmann til viðurkenningar bótarétts eftir slys. Konan lenti í mjög alvarlegu slysi þegar blað sláttuvélar skaust í fót hennar.
Slysið átti sér stað þann 5. ágúst árið 2023 á jörð við sumarhús á ónefndum stað. Eiginmaður konunnar var að slá tún með sláttuþyrlu tengda við Massey Ferguson dráttarvél en hún að slá með sláttuorfi. Skyndilega brotnaði eitt hnífsblað sláttuþyrlunnar af og skaust 26 metra leið að konunni og hafnaði í fæti hennar.
Hlaut hún mjög alvarlega áverka af þessu og var hringt á viðbragðsaðila. Þurfti að flytja konuna á sjúkrahús í Reykjavík með þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Konan var með frítímaslysatryggingu hjá VÍS en tryggingafélagið hafnaði bótaskyldu á þeim grundvelli að dráttarvélin væri ekki tryggð. Eftir skoðun innanhúss viðurkenndi VÍS loks rétt konunnar til bóta en hafnaði að greiða lögmannskostnað hennar.
Höfðaði konan mál gegn VÍS til að fá hann greiddan og hafði betur í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, 18. júlí.
„Ekki leikur heldur vafi á því að það var höfnun stefnda á skyldu sinni til greiðslu bóta sem olli því að stefnandi sá sér ekki annað fært en að leita til lögmanns,“ segir í niðurstöðu dómsins.
Var VÍS gert að greiða konunni tæpar 500 þúsund krónur með vöxtum sem og aðrar 500 þúsund krónur í málskostnað.