Eitt stærsta persónulega gjaldþrot Íslandssögunnar, sem hljóp á milljörðum króna, var enduropnað á dögunum og síðan lokað aftur skömmu síðar. Við snúninginn fengu kröfuhafar rúmar 300 þúsund krónur í viðbót til skiptanna. Verður það að teljast talsverð fyrirhöfn fyrir svo hlutfallslega lága upphæð en allt er víst hey í harðindum.
Forsaga málsins er sú að þann 20. desember 2013 var athafnamaðurinn Guðmundar A. Birgisson úrskurðaður gjaldþrota. Alls tók rúm níu ár að ganga frá skiptunum og var því lokið í desember 2022. Í millitíðinni, árið 2020, var Guðmundur dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir skilasvik og peningaþvætti.
Hann játaði sök í málinu en það snerist um að hann hefði haldið eignum frá skiptastjóra þrotabús síns, meðal annars eignum á Spáni og í Bandaríkjunum, auk þess sem hann kom undan verðmætu málverki eftir hollenskan listmálara.
Guðmundur hafði átt umdeildan feril í meira lagi. Hann var umsvifamikill fjárfestir á árum áður, sérstaklega með aðkomu sinni að félaginu Lífsvali sem keypti upp um fimmta tug jarða víða um landið og stýrði meira en milljón lítra mjólkurkvóta.
Þá hefur aðkoma hans að minningarsjóði frænku sinnar, Sonju Zorilla, verið á milli tannanna á fólki árum saman. Sonja átti ævintýralegt lífshlaup og hagnaðist vel á viðskiptum á Wall Street á sínum tíma. Við andlát hennar fóru eignirnar, um 10 milljarðar króna, í sérstakan sjóð sem átti meðal annars að styrkja langveik börn á Íslandi og í Bandaríkjunum. Guðmundur var tilefnefndur sem einn af umsjónarmönnum sjóðsins. Peningarnir runnu hins vegar aldrei til langveikra barna og enn er á huldu hvað varð um þá.
Eins og áður segir var gjaldþrot Guðmundar árið 2013 eitt stærsta persónulega gjaldþrot Íslandssögunnar en alls voru lýstar kröfur tæplega 2,8 milljarðar. Þegar skiptum lauk árið 2022 var ljóst að um 30 prósent fékkst upp í þessar kröfur, alls 159 milljónir krónar og 769 milljónir króna upp í almennar kröfur.
Víkur þá sögunni til jólanna 2024 en þá var allt í einu tilkynnt að skiptastjóri þrotabúsins, Erla S. Árnadóttir, hefði ákveðið að taka búið upp að nýju, líklega í ljósi þess að einhverjar nýjar eignir hefðu komið til skiptanna.
Þeim skiptum lauk síðan þann 10. júlí síðastliðinn, samkvæmt tilkynningu í Lögbirtingablaðinu, með því að kröfuhafar fengu 305.658 krónur til viðbótar í sinn hlut.