Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum, Arndís Bára Ingimarsdóttir, hefur lýst sig vanhæfa til að annast rannsókn máls þar sem faðir hennar er á meðal kærðra. Kemur þetta fram í bréfi lögreglustjórans til Ríkissaksóknara, sem dagsett er 11. júlí.
Embætti lögreglustjórans í Vestmannaeyjum var falið að rannsaka mál sem varðar kæru fyrirtækisins Houshang ehf. á hendur starfsmönnum fasteignaumsjónar Vestmannaeyjabæjar. Meðal þeirra sem kæran tekur til er faðir lögreglustjórans, sem er umsjónarmaður fasteigna í bænum.
Eigandi fyrirtækisins Houshang ehf. kærði Lögreglustjórann í Vestmannaeyjum og Vestmannaeyjabæ til héraðssaksóknara vegna framgöngu þessara aðila í kjölfar andláts vinar mannsins sem bjó í leiguhúsnæði í eigu bæjarsins.
Andlátið var í fyrstu óútskýrt og kallaði á rannsókn lögreglu sem meðal annars haldlagði tölvur og símtæki sem voru í íbúðinni. Eftir að hafa fjarlægt lík mannsins af vettvangi og haldlagt áðurnefnda hluti, afhenti lögregla leigusalanum íbúðina sem hinn látni hafði búið í, en leigusalinn var Vestmannaeyjarbær, og starfsmenn á hans vegum tæmdu íbúðina.
Eigandi Houshang staðhæfir að verðmæti í eigu fyrirtækisins hafi horfið við þessa tæmingu og ekki komið fram aftur, þar á meðal tvö handofin persnesk teppi. Ennfremur hafi sími hans sjálfs, sem hann hafði lánað hinum látna, verið á meðal haldlagðra muna lögreglu og lögregla hafi rannsakað innihald hans án þess að afla sér til þess dómsúrskurðar.
Niðurstaða héraðssaksóknara, sem er staðfest af ríkissaksóknara, er sú að vísa frá kæru á hendur lögreglu varðandi horfna muni úr íbúðinni en vísa þeim hluta sem lýtur að kæru gegn starfsmönnum Vestmannaeyjabæjar til rannsóknar hjá Lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum. Eigandi Houshang ehf. taldi að lögreglustjóri væri vanhæfur til að rannsaka málið vegna áðurnefndra fjölskyldutengsla og krafðist þess að málið verði framsent til Héraðssaksóknara eða annars lögregluembættis.
Svo virðist sem afskipti lögreglustjórans af málinu gætu verið á skjön við stjórnsýslulög. Í þriðju grein þeirra segir að starfsmaður eða nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls (2. liður) „Ef hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar.“
Kærandi í málinu og lögmaður hans kröfðust þess að Arndís segði sig frá málinu en ekki bárust viðbrögð við kröfum þeirra. DV sendi fyrirspurn á lögreglustjórann um málið seint í júní en ekki bárust svör við erindinu.
Þann 11. júlí, eða síðastliðinn föstudag sendi lögreglustjórinn síðan bréf til ríkissaksóknara þar sem segir:
„Undirritaður lögreglustjóri telur sig skorta hæfi til meðferðar málsins með vísan til d. liðar 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. 3. mgr. 26. gr. sömu laga, þar sem framkomin kæra eða kvörtun í málinu, dags 5. júní sl., sem var framsend lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum 3. júlí sl. og móttekin 9. júlí sl. beinist að föður lögreglustjóra.“