Kristinn Ka. Nína Sigríðarson, betur þekktur sem Kiddi kanína, rak plötubúðina Hljómalind í Reykjavík um árabil, en undir það síðasta var hún á Laugavegi 21, þar til versluninni var lokað í febrúar 2003.
Kiddi rifjar upp skemmtisögu úr verslunni frá árinu 1997 þegar verslunin var á Laugavegi 39. Sjálfur bjó Kiddi á Grettisgötu 1, undir Spessa ljósmyndara og yfir Svedda tönn eins og hann segir sjálfur.
„Dag 1 kemur flottur og smart klæddur gæji inn í búðina (Rune Lindbæk) og fer að skoða og safna sér í plötubunka á vínil svona eins og gengur. Hann var kominn með um 10 plötur. Það var mikið að gera og ég á fullu í afgreiðslu en er með spæjaraaugu og vakandi skilningarvit og fylgist með hvað kauði er að safna sér. Loks er ég hef tíma í hann og gef mig til þjónustu kemur í ljós að hann er norskur og bara búinn að velja sér plötur sem ég var mjög ánægður með, hann hafði að mínu viti góðan smekk en vanhagaði um nokkra góða gripi.“
Segist Kiddi hafa bent manninum á plötu sem Kidda fannst geggjuð og vantaði í bunkann hjá manninum. Þarna vissi Kiddi engin deili á viðskiptavininum.
„„Þekkirðu þessa,“ spurði ég og rétti að honum geggjaða skífu með Those Norwegians sem var eiginlega uppáhaldið mitt þá. Hann brosir afar fallega er ég rétti plötuna að honum… „ég er í þessu bandi“. Og ég verð starstruck. Ok „elska þessa plötu“. „En áttu þessa“, spyr ég og og rétti að honum aðra skífu sem var að virka á mig með allt öðru bandi á allt öðrum „label“, Drum Island og segi við hann, „þessi er must eign“ og enn kímir kauði og segir „þetta er líka mín plata“.
Kiddi og Rune Lindbæk féllust við það í faðma og bauð Kiddi honum heim í mat og að hitta Spessa. Félögum þremur kom vel saman og varð leiddi kvöldið til samstarfs Lindbæk og Spessa.
„Spessi gerði plötuumslagið fyrir sólóplötu Aggi Peterson (Frost) minnir mig hún hafi heitið sem Rune stýrði upptökum á. Hún kom hingað heim í kjölfarið og Spessi gerði myndasyrpu tekna í frystihúsi í Grindavík og plötuumslagið var valið plötuumslag ársinns 1998 á norsku tónlistarverðlaununum það árið. Enda flott og alveg Spessi alla leið.
Ætla að reyna að hafa upp á kauða og endurnýja kynnin.“