Skotið var úr byssu inni á hótelherbergi á Black Pearl hótelinu við Tryggvagötu í Reykjavík á föstudagskvöld. Engan sakaði en hætta skapaðist af framferðinu.
Fimm manns voru handteknir um helgina vegna atviksins og voru allir yfirheyrðir. Þeim hefur verið sleppt lausum og er ekki krafist gæsluvarðhalds yfir þeim.
Elín Agnes Eide Kristínardóttir, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði lögreglunnar, segir í samtali við DV að ekki hafi verið talin ástæða til að fara fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum. Hún vill ekki ganga svo langt að segja að málið sé fullupplýst en segir að rannsókn gangi óneitanlega vel.
DV hefur heimildir fyrir því að um slys hafi verið að ræða fremur en árás en Elín Agnes vildi ekki staðfesta það.
Aðspurð segir hún að mennirnir fimm séu allir Íslendingar.