fbpx
Fimmtudagur 10.júlí 2025
Fréttir

Fundu músaskít og beinagrindur út um allt hús – Kröfðust 22 milljón króna

Björn Þorfinnsson
Fimmtudaginn 10. júlí 2025 13:34

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt eigendum fasteignar í Árbæ bætur frá fyrri eigendum til þess að vinna bug á yfirgengilegum músagangi. Staðfesti dómurinn að seljendur höfðu vitað af vandanum árum saman en þagað yfir honum. Var nýjum eigendum dæmdar bætur sem voru þó aðeins lítið brot af því sem farið var fram á.

Höfðu glímt við músagang árum saman

Málið snýst um raðhús í Árbæ sem nýir eigendur keyptu í febrúar 2019 en fyrri eigendur höfðu búið þar í 11 ár fram að því. Ástandsskoðun fór fram við kaupin en þar kom ekkert alvarlegt í ljós þó að tími væri kominn á viðhald.

Veturinn 2020 höfðu nýju eigendurnir síðan samband við fyrri eigendur út af músagangi í eigninni og aftur árið síðar þegar ljóst var að um alvarlegt vandamál var að ræða. Þá höfðu nýju eigendurnir komist að því að hinir fyrri höfðu glímt við sama vandamál árum saman.

Í dómskjölum kemur fram að mýs hafi hreinlega lagt undir sig loft og veggi hússins. Meindýraeyðir staðfesti að hann hafi ítrekað þurft að eitra í millilofti áður en húsið var selt – síðast í janúar 2019, aðeins mánuði áður en kaupsamningur var undirritaður. Þar hafi hann þurft að setja eitur bæði í eldhúsi og barnaherbergi. Í skýrslum er lýst músaskít á víð og dreif og beinagrindum músa sem fundust um allt hús.

Þrátt fyrir þetta kom ekkert fram í söluyfirliti og ekkert var minnst á meindýr við ástandsskoðun. Kaupendur fluttu inn í hús sem auglýst var sem „mikið endurnýjað“ – og uppgötvuðu skömmu síðar að þeir deildu því með fjölda loðinna boðflenna.

Fóru nýju eigendurnir fram á upp á tæplega 22 milljónir króna vegna vandamálsins og til að standa straum af þeim umfangsmiklu aðgerðum til að vinna bug á því.

 „Það eru mýs alls staðar í Árbænum“

Seljendur héldu því fram að músagangur væri algengt vandamál á svæðinu og eitrunin fyrir músunum hafi aðeins verið forvarnarskyni. Þeir sögðust því ekki hafa haft raunverulega vitneskju um alvarleika málsins og báru fyrir sig að kaupendur hefðu sjálfir látið framkvæma ástandsskoðun sem hefði átt að leiða gallann í ljós. Einnig var því haldið fram að mikill músagangur um veturinn 2020-2021 væri líklega afleiðing af óvenjulegu veðri.

Vottar staðfesta árangurslausa baráttu gegn músunum

Tvö nágrannavitni lýstu því hins vegar að þau hefðu árum saman heyrt kvartanir frá seljendum um músagang. Einnig liggur fyrir að eitrað var fyrir mýs í fasteigninni að minnsta kosti  frá árinu 2016. Meindýraeyðir staðfesti að það hafi verið nauðsynlegt – og dómurinn taldi sannað að seljendur hafi vitað af viðvarandi vandamáli.

Í niðurstöðu sinni taldi Héraðsdómur Reykjavíkur, í stuttu máli, að nýju eigendunum hefði ekki tekist að sýna fram á allt það tjón sem að þau töldu sig hafa orðið fyrir. Kostnaðurinn við að gera úrbætur til að stöðva músaganginn var sagður nema um 2 milljónum króna af matsmanni og var það niðurstaða dómstólsins að dæma nýju eigendunum bætur upp á samtals rúmar 1,6 milljónir króna. Málskostnaður var felldur niður.

Hér má lesa ítarlegan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt