Heiða Ingimarsdóttir, varaþingmaður Viðreisnar og íbúi Múlaþings, fylgist vel með málþófi stjórnarandstöðu Alþingis í veiðigjaldaumræðunni. Þar hafi þingmenn stjórnarandstöðunnar ítrekað lesið upp úr sömu umsögnunum um frumvarpið, frá 26 sveitarfélögum. Heiða segist í grein sem birtist hjá Vísi í dag bíða í hvert sinn spennt eftir að heyra þar um sitt sveitarfélag, Múlaþing.
„Þetta geri ég ekki vegna þess að mér finnst svo merkilegt að heyra minnst á sveitarfélagið mitt, heldur vegna þess að þetta stingur mig í hvert einasta skipti.
Ég veit nefnilega að í Múlaþingi eru engar af þeim útgerðum sem greiða nær allt veiðigjaldið. Ég veit líka að málið er þannig vaxið að afslátturinn sem skrifaður er inn í frumvarpið gagnast vel þeim fáu útgerðum sem eftir eru í sveitarfélaginu.“
Heiða rekur að Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur séu í meirihluta í sveitarstjórn Múlaþings og í málefnasamningi flokkanna komi fram að þeir ætli að beita sér fyrir bættum samgöngum og stuðla almennt að góðum innviðum. Því skjóti það skökku við að setja sig upp á móti máli sem hafi það beinlínis að markmiði að byggja upp innviði um land allt.
„Í umsögn meirihluta byggðaráðs Múlaþings er talað á almennan máta um þá vankanta sem minnihluti Alþingis og samtök sjávarútvegssveitarfélaga hafa bent á. Þar skortir tilfinnanlega hnitmiðaða gagnrýni þar sem bein áhrif á sveitarfélagið eru dregin fram.“
Heiða bendir á að raunin sé þó sú að áhrif frumvarpsins á Múlaþing verði lítil sem engin, nema þá helst í formi innviðauppbyggingar sem löngu er kominn tími á. Því komi það spánskt fyrir sjónir að meirihlutinn sé á móti frumvarpinu. Meðal annars vísi Múlaþing í skýrslu sem samtök sjávarútvegssveitarfélaga keyptu frá KPMG, en fyrirtækið gerði mikinn fyrirvara við niðurstöðu skýrslunnar. Heiða segir að umsögn Múlaþings sé ekkert annað en grímulaus hagsmunagæsla sem komi reyndar ekkert á óvart þegar málin eru skoðuð frekar. Stjórnarandstöðuflokkar Alþingis séu nefnilega í meirihluta í langflestum sveitarfélögum sem skiluðu neikvæðri umsögn um frumvarpið.
„En svona getur þetta orðið þegar fólk telur það heilaga skyldu sína að verja ákveðna hagsmuni. Við sjáum það vel í þinginu, þar sem þessir sömu einstaklingar hafa nú slegið Íslandsmet í málþófi. Þessir sömu einstaklingar væru vanhæfir vegna beinna hagsmunatengsla ef sömu reglur giltu á Alþingi og í sveitastjórnum.“
Heiða hitti nýlega íbúa frá Djúpavogi sem hvatti meirihluta Alþingis áfram í málinu. Veiðigjöldin séu byggðamál. Eins hafi minnihluti Múlaþings skilað inn umsögn um frumvarpið þar sem því er beint til ríkisstjórnarinnar að beina fjármagninu sem fæst frá veiðigjöldum í innviðauppbyggingu á landsbyggðinni.
„Stjórnarandstaðan á Alþingi vitnar af einhverjum ástæðum aldrei í þessa umsögn.“
Í umsögn minnihlutans segir meðal annars:
„Þó er það svo að beinir hagsmunir Múlaþings í þessu máli eru litlir þar sem áhrif á þá sjávarútvegsstarfsemi sem eftir er innan sveitarfélagsins eru lítil. Má deila um hvort Múlaþing þyrfti yfir höfuð að skila inn umsögn. Þar sem stórútgerðin hefur ítrekað rústað sjávarútvegsstarfsemi í sjávarplássum Múlaþings er erfitt að sjá hvata sveitarfélagsins til þess að leggjast gegn því að sama útgerðin greiði sanngjarnt gjald til innviðauppbyggingar landsins. Það hljómar eins og pólitískur forarpyttur.“