fbpx
Þriðjudagur 08.júlí 2025
Fréttir

Þórður afhjúpar hvernig stjórnarandstaðan nálgast þinglokasamninga – „Við það er ekki hægt að una“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 8. júlí 2025 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórður Snær Júlíusson, framkvæmdastjóri þingflokks, Samfylkingarinnar, segir stjórnarandstöðuna nálgast þinglokasamninga eins og um einhvers konar stjórnarmyndunarviðræður sé að ræða. Hann segir að málþófið, sem að óbreyttu mun bæta Íslandsmet í dag, sé bein aðför að lýðræði og þingræði Íslands.

„Staðan er grafalvarleg og það ber að nálgast hana þannig,“ skrifar Þórður í pistli sem birtist hjá Vísi í dag þar sem hann segir málþóf stjórnarandstöðunnar beina aðför að lýðræði og þingræði.

„Sitjandi stjórnarandstaða hefur einfaldlega ákveðið að ríkisstjórnin megi ekki koma lykilmálum sínum, sem hún var kosin til að framfylgja, í gegn. 27 manna minnihluti ætlar að banna 36 manna meirihluta að framfylgja vilja kjósenda í landinu.“

Fordæmalaus klækjabrögð

Þórður segir „klækjabrögð, tafarleiki og málþóf“ stjórnarandstöðunnar fordæmalaus með öllu. Málþófi sé ekki bara beitt gegn frumvarpi um leiðréttingu veiðigjalda heldur í umræðu um reglugerð um plasttappa, um fríverslunarsamning við Tæland og um innleiðingu nýs námsmats.

Um veiðigjöldin sé stjórnarandstaðan að hamra á atriðum sem enginn fótur sé fyrir, svo sem að byggt sé á röngum tölum þrátt fyrir að Skatturinn hafi nú ítrekað staðfest tölurnar. Eins sé því haldið fram að markaðsverð sem nú á að miða veiðigjöldin við sé ekki raunverulegt heldur jaðarverð. Stjórnarandstaðan haldi því fram að raunverulegt verð sé það sem útgerðir ákveða sjálfar í viðskiptum við sínar eigin fiskvinnslur.

Þórður rekur að eftir efnahagshrunið 2008 hefði verið hægt að innkalla kvóta sem þá var búið að veðsetja fyrir 560 milljarða, eða 1.100 milljarða á núvirði. Þá hefði verið hægt að bjóða kvóta út á markaði og fá sannarlegt markaðsverð. Þáverandi ríkisstjórn vildi þó ekki fara þá leið með vísan til þess að þá hefði stoðunum verið kippt undan verðmætasköpun á viðkvæmum tímum. Málamiðlunin voru veiðigjöldin. Svo þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsókn komust aftur til valda ári eftir að veiðigjöldunum var komið á var strax ráðist í að vinda ofan af gjöldunum.

Fyrrverandi ríkisskattstjóri, Indriði Þorláksson, meti það svo að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafi lækkað veiðigjöldin um 62,6 milljarða á árunum 2012-2025. Eins liggi fyrir að stærstu útvegsfyrirtækin hafi hagnast gríðarlega á síðustu árum samhliða útvötnuðum veiðigjöldum. Það liggi fyrir að fyrirhuguð leiðrétting muni helst vera greidd af örfáum blokkum í sjávarútvegi, fjórum fjölskyldum og einu kaupfélagi, sem eigi auð upp á að minnsta kosti 500 milljarða.

„Hér er því, líkt og áður sagði, verið að verja þrönga sérhagsmuni. Í þeirri vörn er litli maðurinn ítrekað notaður sem skjöldur fyrir breiðu bökin. Það er í fullu samræmi við leikjahandbók SFS og þess valdakerfis sem samtökin og stjórnmálaarmar þeirra tilheyra.“

Nálgast þinglok eins og stjórnarmyndun

Þórður segir að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn telji sig eiga hefðarrétt að völdum sem birtist skýrt í nálgun þeirra á þinglokasamninga.

„Birtingarmynd þessa er hvergi ljósari en í nálgun þeirra gagnvart þinglokasamningum. Þá hafa þeir ekki nálgast eins og minnihlutaflokkar heldur eins og um einhvers konar stjórnarmyndunarviðræður sé að ræða. Að þeir hafi neitunarvald sem þeir geta beitt gagnvart pólitískum áherslumálum sitjandi stjórnar, þrátt fyrir að hún hafi skýrt lýðræðislegt umboð, mikinn meirihluta á þingi og mikinn stuðning á meðal almennings í landinu.“

Frumvarp um leiðréttingu veiðigjalda snerist og snýst um kerfisbreytingu sem á að tryggja þjóðinni rentu af auðlind sinni. Út af málþófi stjórnarandstöðunnar sé málið þó farið að snúast um meira – sjálft lýðræðið.

„Það snýst um hvort lýðræðið í landinu sé virkt eða hvort Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og skilnaðarbarnið þeirra Miðflokkur eigi að ákveða hvaða pólitísku áherslumál eigi að verða að lögum í landinu, líka þegar kjósendur hafa hafnað þeim og kosið aðra til valda.

Við það er ekki hægt að una. Lýðræðið þarf að virka. Og við það þarf enginn að vera hræddur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný könnun sýnir djúpa gjá á milli vestur- og austurhluta Reykjavíkur – Sjálfstæðisflokkurinn höfðar ekki til ungra kjósenda

Ný könnun sýnir djúpa gjá á milli vestur- og austurhluta Reykjavíkur – Sjálfstæðisflokkurinn höfðar ekki til ungra kjósenda
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Taldi sig vera í ástarsambandi við Chat GPT botta – Réðist á lögreglumenn og var skotinn til bana

Taldi sig vera í ástarsambandi við Chat GPT botta – Réðist á lögreglumenn og var skotinn til bana