Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Samstöðvarinnar, bendir á að Ísland skeri sig rækilega úr nágrannalöndum sínum hvað varðar framlög ríkisins til rannsókna og þróunar. Hér á landi eru framlög til grunnrannsókna háskóla mikið lægri en annars staðar en á sama tíma eru framlög til rannsókna einkafyrirtækja miklu hærri en í öðrum löndum OECD.
„Rekja má þetta til stefnubreytingar í ríkisstjórnum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Katrínar Jakobsdóttur þar sem Bjarni Benediktsson beitti sér fyrir gríðarlegum skattaafslætti til einkafyrirtækja vegna rannsóknar og þróunar,“ segir í frétt Gunnars hjá Samstöðinni.
„Fram hefur komið að eftirlit með þessum afslætti er sáralítið. Fyrirtæki virðast nánast geta sótt sér afsláttinn án vandræða. OECD, Efnahags- og framfarastofnunin, hefur meðal annars bent á þessa galla.
Og afleiðingin er stórkostlegur fjáraustur úr ríkissjóði til einkafyrirtækja“
Á myndinni hér að neðan hefur Gunnar merkt inn hin Norðurlöndin, en Ísland trónir þarna efst.
Fjórir prófessorar við Háskóla Íslands hafa meðal annars vakið athygli á þessu á dögunum í grein sem birtist hjá Vísi þar sem fram kemur að þó að heildartölur um vísinda- og nýsköpunarfjármögnun á Íslandi líti vel út á yfirborðinu sé það þó staðreynd að háskólasamfélagið hafi ekki notið góðs af þróuninni. Prófessorarnir Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Magnús Karl Magnússon ræddu um þetta við Gunnar Smára í Rauða borðinu gær.
Rétt er að geta þess að í úttekt sem OECD vann að beiðni þáverandi ríkisstjórnar árið 2023 segir að skattastuðningur vegna rannsóknar og þróunar hafi hvetjandi og jákvæð áhrif á fyrirtæki til frekari fjárfestinga á þessu sviði, þá sérstaklega hjá litlum og örfyrirtækjum. Hins vegar taldi OECD þörf á aukinni gagnasöfnun, eftirliti og greiningu svo hægt sé að meta árangurinn af þessum stuðningi. Eins sé lítið til ef gögnum sem gefi vísbendingar um dreifingu skattaafsláttarins. Styrkir til nýsköpunarfyrirtækja þrefölduðust á árunum 2018-2023 og mat Rannís það svo að útgjöld til rannsóknar og þróunar hafi numið rúmlega 114 milljörðum árið 2023. Skatturinn benti árið 2021 á að brögð hefðu verið að því að við skattskil hafi fyrirtæki skráð almennan rekstrarkostnað undir kostnað vegna staðfestra nýsköpunarverkefna, en slík misnotkun gæti leitt til verulegra útgjalda af hálfu hins opinbera í formi óréttmætra endurgreiðslna auk þess sem misnotkunin væri til þess fallin að raska samkeppni á markaði. Gagnrýndi Skatturinn einnig að ekki væri hægt að refsa þeim sem svindla á þessu kerfi, en Kjarninn fór ítarlega yfir málið í frétt sem birtist í nóvember 2022.
Morgunblaðið greindi frá því í nóvember á síðasta ári að tölvuleikjafyrirtækið CCP hafi fengið hæstu upphæðina 2024 í skattafrádrátt, eða tæplega 449 milljónir. Nox Medical, EpiEndo Pharmaceuticals og SidekickHealth fengu þá öll 385 milljónir í sérstakan skattafrádrátt. 65 fyrirtæki fengu þá afslátt upp á 11,08 milljarða samtals, en Skatturinn birti aðeins upplýsingar um þau fyrirtæki sem fengu 78 milljónir eða meira í afslátt. Heildarupphæð frádráttarins nam 16,6 milljörðum í fyrra.