Tíu ára gömul bandarísk stúlka lést í hinni gríðarlegu hitabylgju sem gengur yfir meginland Evrópu. Loka þurfti þúsundum skóla í Frakklandi.
Stúlkan var í heimsókn í höllinni í Versölum með fjölskyldu sinni síðdegis í gær þegar harmleikurinn skall á. Hneig hún örend niður í hallargarðinum og var starfsfólk Versala kallað til og svo sjúkrabíll. Reyndar voru endurlífgunar en allt kom fyrir ekki. Klukkutíma eftir að hún hneig niður var hún úrskurðuð látin.
Talið er að hún hafi látist úr hjartaáfalli í hinum mikla hita en dánarorsökin hefur ekki verið staðfest og rannsókn á eftir að fara fram. Veikindi gætu einnig hafa átt þátt í andlátinu.
Hitabylgjan á meginlandi Evrópu hefur verið ein sú mesta í langan tíma. Í Frakklandi hefur 2.200 skólum verið lokað.
Umhverfisráðherra landsins, Agnes Pannier-Runacher, tilkynnti að tvær aðrar manneskjur hefðu látist og meira en 300 manns hafa þurft aðhlynningu viðbragðsaðila. Gærdagurinn var heitasti júnídagur í Frakklandi síðan mælingar hófust árið 1947.
Rauð viðvörun er í gangi í landinu líkt og víðar í Evrópu og yfirvöld vara fólk við að vera á ferli á heitasta tímanum, einkum ung börn, gamalt fólk og veikt.