fbpx
Miðvikudagur 16.júlí 2025
Fréttir

Ingibjörg uppgötvaði 19 ára „áfengismenningu“ sem Íslendinga skorti sárlega – Svo sá hún loksins ljósið

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 30. júní 2024 13:00

Mynd: Unsplash.com

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hef aldrei verið kúl, ég hef hins vegar fengið krabbamein og það var ekkert sérstaklega mikið partý í lyfjameðferðinni, sem gjörsamlega rústaði téðri slímhúð svo ég hugsa mig núna ÞRISVAR um áður en ég baða hana upp úr göróttum vökva. Ég get ekki einu sinni notað tannkrem með sterku myntubragði! Ég fæ mér samt enn eitt og eitt freyðivínsglas þegar mér finnst virkilega tilefni til, sem er kannski 2-3 sinnum á ári, en annars eru komnir svo bragðgóðir staðgenglar að það er eiginlega algjör óþarfi að misbjóða slímhúðinni og heilanum á þann hátt,“

segir Ingibjörg Rósa Björnsdóttir hamingjuþjálfi hjá Andanu Happiness Coaching í grein sinni á Vísi.

Ingibjörg segir að frjálsleg áfengisneysla Breta hafi verið eitt af því sem vakti athygli mína þegar ég flutti til Bretlands fyrst, 19 ára gömul.

„Þarna varð ég vitni að því að vikuleg matarinnkaup venjulegrar, miðstéttarfjölskyldu innihéldu 6-8 flöskur af hvítvíni og nokkrar kippur af bjór. Þar með lærði ég að í útlöndum gæti fólk fengið sér nokkra bjóra eftir vinnu og 1-2 vínglös með matnum, alla daga vikunnar, án þess að vera með háreysti og dólgslæti af ofölvun eða liggja sárlasið í rúminu heilan dag á eftir. Þarna taldi ég mig hafa uppgötvað „áfengismenningu“ sem Íslendinga skorti sárlega, að kunna að umgangast vín og bjór.“

Segist Ingibjörg í kjölfarið hafa talað fyrir því, þrátt fyrir að vera bindindismanneskja langt fram á fertugsaldurinn, að Íslendingar þyrftu bara að læra að drekka, hætta að þamba sterk vín um helgar og dreifa því betur yfir vikuna, en í formi léttvíns og bjórs. 

„Svo lengi sem þú yrðir ekki svín með víni, varstu fín. Síðan þá hafa bæði ég og Bretar gert okkur grein fyrir því að „áfengismenning“ þeirra er alls ekki til eftirbreytni og hefur í raun einungis ýtt undir áfengisneyslu hjá yngri aldurshópum, ekki síst svokallaðar „binge-drinking“ venjur unglinga.“

Ingibjörg Rósa Björnsdóttir

Ingibjörg rekur að „Vínmenning“ Íslendinga þykir hafa snarbatnað á síðustu 25 árum, „núna erum við loksins búin að ná nágrannaþjóðum okkar í þroska og þurfum ekki að skammast okkar fyrir að vera svona aftarlega á merinni, veifandi landabrúsa. Nú erum við orðin „móðins“, kunnum okkur og erum meira töff með glas í hendi því í öllu umhverfi mínu sé ég skilaboð um að áfengi sé fínt (tvöföld merking), svo lengi sem þú „kannt að drekka“ og ert ekki í þeim „pínulitla“ hópi fólks sem verður áfengisfíklar. Það er jú óheppilegt en virðist vera samfélagslega samþykktur fórnarkostnaður fyrir „vínmenningu“ landans,“ segir Ingibjörg og heldur áfram:

„Við hendum bara peningum í vandamálið, í lágmarksaðstoð við þau sem eru svo óheppin að hafa röng gen eða eru ekki „nógu sterkir persónuleikar“. Við kaupum SÁÁ álfinn árlega en höldum svo áfram að hampa áfengi sem guðaveigum við öll tækifæri, gerum því jafnvel hátt undir höfði með tilvísunum í dularfullar „rannsóknir“ sem engin veit hver hefur fjármagnað, sem benda til þess að áfengi geti mögulega verið heilsusamlegt.“

Segir hún þetta hljóma óþægilega líkt áróðrinum og markaðssetningunni sem tóbaksframleiðendur heimsins komust lengi vel upp með á síðustu öld. 

„En þar sáum við loksins ljósið, í gegnum þykkan tóbaksreykinn, og neituðum að láta plata okkur lengur til að fórna heilsunni auk skattfjárins sem fór í heilbrigðisþjónustu við ört stækkandi hópa lungna, hjarta-og æðasjúklinga. Að ekki sé minnst á ólyktina og óþrifin! Í dag er íslenskt samfélag stolt af því að þrengja að tóbaksneytendum, bölva þeim í sand og ösku og senda þeim háværar áminningar um hversu mikið tóbakið spilli heilsu þeirra, skál fyrir því! 

Veltum því svo fyrir okkur hvers vegna krabbameinstilfellum fjölgar svo ört – sem og heilabilunarsjúkdómum – á meðan við sötrum etanól í glansumbúðum. Etanól er fljótandi eiturefni sem við myndum aldrei nokkurn tíma skola augun á okkur upp úr, en hikum þó ekki við að baða slímhúðina innvortis uppúr þessu efni, allt frá munni niður í þið-vitið-hvað. 

Og skellum svo skollaeyrum við fregnum af þeirri vísindalegu staðreynd að áfengisneysla – hvort sem um er að ræða léttvín eða ákavíti – eykur líkurnar á að minnsta kosti sex mismunandi tegundum krabbameins: í munni, hálsi, vélinda og ristli (akkúrat á leiðinni sem etanólið fer í gegn, sjáið til), auk lifrar- og brjóstakrabbameins. Enn fremur hefur áfengi mikil áhrif á heilann (döh, hefurðu einhverntíma hitt drukkna manneskju?) og veldur langtímaskaða þar sem getur ýtt undir heilahrörnunarsjúkdóma síðar meir. Að ég tali nú ekki um depurðina og geðsveiflurnar sem áfengisneysla veldur. En öllu þessu viljum við helst ekki vita af því það skemmir partýið, alveg eins og þau sem kvörtuðu yfir tóbaksreyknum voru púkalegir nöldrarar á seinni hluta síðustu aldar, og alls ekki kúl!“

Segir Ingibjörg að ef Íslendingar tækju sig til og yrðu fyrirmynd annarra þjóða, líkt og þeir gerðu varðandi reykingar á sínum tíma,  í að minnka áfengisneyslu (ekki bara breyta henni) og auka almenna vitund um alvarlega skaðsemi drykkja sem innihalda etanól (lesist: allt áfengi) „ja, þá myndi ég nú aldeilis skála í núll prósent freyðivíni, og jafnvel splæsa á línuna!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Maðurinn sem lýst var eftir er fundinn

Maðurinn sem lýst var eftir er fundinn
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Húðlæknir vill banna ljósabekki á Íslandi – „Algjörlega fáránlegt að það sé ekki búið að banna þá“

Húðlæknir vill banna ljósabekki á Íslandi – „Algjörlega fáránlegt að það sé ekki búið að banna þá“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Hvað gerðist í flugslysinu mannskæða: „Þeir segja okkur aðeins það sem þeir vilja að við vitum – hinu er haldið leyndu“

Hvað gerðist í flugslysinu mannskæða: „Þeir segja okkur aðeins það sem þeir vilja að við vitum – hinu er haldið leyndu“
Fréttir
Í gær

Kvartað undan örtröð á tjaldsvæðinu Hömrum – „Þetta er smá eins og villta vestrið hérna“

Kvartað undan örtröð á tjaldsvæðinu Hömrum – „Þetta er smá eins og villta vestrið hérna“
Fréttir
Í gær

Dómurinn yfir Ymi Art birtur: „Gakktu í bæinn, hún er dauð“

Dómurinn yfir Ymi Art birtur: „Gakktu í bæinn, hún er dauð“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Valur vill gera 500 gjaldskyld bílastæði á fyrirhuguðu æfingasvæði

Valur vill gera 500 gjaldskyld bílastæði á fyrirhuguðu æfingasvæði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Foreldrar hennar voru myrtir – Eftir ræðuna í jarðarför þeirra varð hún efst á lista yfir grunaða

Foreldrar hennar voru myrtir – Eftir ræðuna í jarðarför þeirra varð hún efst á lista yfir grunaða