En hversu oft má maður vinna í fjarvinnu og er það fullkomlega eðlilegt að fólk sem vinnur dæmigerða skrifstofuvinnu mæti ekki nema endrum og eins á skrifstofuna?
Um þetta eru skiptar skoðanir en Tom Hunt, framkvæmdastjóri fyrirtækis sem heitir Fame, vakti mikla athygli á LinkedIn fyrir skemmstu þar sem hann sagði sína skoðun á málinu. Fame er fyrirferðamikið í hlaðvarpsbransanum og eru höfuðstöðvar þess í Bretlandi.
Í færslu sinni á LinkedIn sagðist Tom hafa fengið fyrirspurn frá starfsmanni um hvort að hún gæti sinnt vinnu sinni erlendis í sex vikur. „Hún byrjaði á að útskýra hvers vegna en ég stoppaði hana af og sagði við hana að það væri í góðu lagi, ég þyrfti ekki að fá neina útskýringu. Þú ákveður hvernig þú hagar þinni vinnu, sagði ég,“ segir Tom.
„Viltu vera í nýju landi í hverjum mánuði? Ekkert mál. Vera úti í garðinum heima hjá þér? Ekkert mál. Þarftu að fara til læknis í nokkra klukkutíma. Ekkert mál. Vinna frá kaffihúsi eftir að hafa skutlað krökkunum í skólann? Ekkert mál.“
Óhætt er að segja að færsla Toms hafi vakið athygli og hafa verið skrifaðar 9.000 athugasemdir við hana. Margir hrósa Tom fyrir að sýna starfsfólki sínu sveigjanleika en aðrir eru þeirrar skoðunar að hugmyndin hljómi kannski betur en hún er í raun og veru. „Ég hef fengið allar mínar bestu hugmyndir þegar ég hef setið innan um annað fólk þar sem hægt er að kasta boltanum á milli.“
News.com.au ræddi við Brett McAllen, framkvæmdastjóra Workspaces, sem segir það hafa ótvíræða kosti að mæta á vinnustaðinn og sinna vinnunni þar. Þar eigi bestu samtölin sér stað og þrátt fyrir góðan vilja sé erfitt fyrir fólk að ná sömu tengslum og nánd þegar unnið er í fjarvinnu.