Í kappræðum forsetaframbjóðenda á dögunum fór frambjóðandinn Jón Gnarr hörðum orðum um þau vinnubrögð fjölmiðla að tilgreina þjóðerni sakborninga í fréttum um afbrot. Þessu viðhorfi er Örn Gunnlaugsson, fyrrverandi atvinnurekandi, hjartanlega ósammála. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag fer hann hörðum orðum um afstöðu Jóns Gnarr.
„Í kappræðum forsetaframbjóðendanna á RÚV 3. maí sl. skammaðist þjóðþekktur frambjóðandi út í fjölmiðla fyrir það að í fréttum um glæpi í samfélaginu kæmi stundum fram þjóðerni gerenda. Sagði hann að þetta kæmi málinu ekkert við og skipti engu máli. Ekki lét hann þar við sitja heldur fullyrti enn fremur að samfélag okkar hefði stórbatnað frá því áður en farið var að hrúga útlendingum inn í landið í stórum stíl. Það er engum blöðum um það að fletta að samfélagi okkar hefur hnignað stórlega undanfarin ár og leyfi ég mér að fullyrða að sú hnignun sé að stórum hluta vegna linkindar stjórnvalda í útlendingamálum,“ segir Örn í grein sinni.
Hann segir að vissulega komi fjöldi heiðarlegra útlendinga hingað til lands en engu að síður sé of stórt hlutfall þeirra sem sækist eftir búsetu hér til vandræða:
„Það er athyglisvert, í ljósi þess að útlendingar eru u.þ.b. 20% þeirra sem hér búa, að 80% fanga í fangelsum landsins eru útlendingar. Þá má sjá við lestur Lögbirtingablaðsins að um sama hlutfall er að ræða þegar gluggað er í ákærur og fyrirköll. Þá er í þeim tilvikum sem ég þekki til þegar kemur að þeim sem eru nappaðir við hnupl úr verslunum og innbrotum, t.d. á byggingarstöðum, þar sem um er að ræða dýrari varning sem væntanlega á að flytja úr landi, um að ræða útlendinga í miklum meirihluta. Auðvitað er mikill fjöldi þeirra sem hingað koma heiðarlegt fólk en það breytir því ekki að hér er ekki tekið af hörku á þeim sem hingað koma til þess eins að leggjast á samfélagið. Fólki sem hingað flyst í því augnamiði að brjóta af sér eða leggjast á kerfið á að vísa umsvifalaust úr landi. Tómlæti stjórnvalda sem hér um ræðir veldur svo almennri útlendingaandúð.“
„Sá frambjóðandi sem talar af alvöru um að það komi ekki málinu við af hvaða þjóðerni skúrkarnir eru á ekkert erindi á Bessastaði að mínu mati,“ segir Örn ennfremur.
Segir hann að nóg sé af innlendum skúrkum þó að þeir séu ekki fluttir sérstaklega inn í landið. „Vonandi eru landsmenn almennt ekki svo skyni skroppnir að velja til setu á Bessastöðum næsta kjörtímabil mann sem lætur sér fátt finnast um að verið sé að rústa samfélagi okkar með kerfisbundnum hætti,“ segir hann og sparar ekki gagnrýnisorðin í garð forsetaframbjóðandans.