Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, aðjunkt og fyrrverandi forstjóri Skipulagsstofnunar, er að gera rannsókn á stöðu skipulagsmála sveitarfélaganna. Á ársfundi Byggðastofnunar á dögunum veitti hún innsýn í rannsókn sína þar sem tölurnar benda til brotalama og spillingar í þessum málaflokk.
Ásdís Hlökk ræddi um málið við Bítið á Bylgjunni í morgun og sagði að niðurstöðurnar veki upp áleitnar spurningar.
Í rannsókn sinni skoðar Ásdís bolmagn sveitarfélaga í skipulagsmálum, hversu vel er haldið um mál og hversu vel það hefur tekist.
„Það er vegna þess að það skiptir okkur svakalega miklu máli hvernig á skipulagsmálum er haldið Þetta er okkar daglega umhverfi í nútíð og framtíð. Þetta varðar samkeppnishæfi samfélaga til langs tíma og bara svo ótal margt.“
Ásdís segir að það skipti miklu máli að vel sé staðið að verkum og að tryggt sé að þar sé almannahagur að stýra ferðinni og sjónarmið til lengri tíma en ekki hagsmunir einstakra aðila að einhverjum skyndigróða.
Hann beindi spurningum til ólíkra hópa sem hafa með skipulagsmál að gera. Kjörnir fulltrúar, sveitarstjórar og svo starfsmenn á plani skipulagsmála sem vinna í þessum málum innan sveitarfélaganna en einnig leitaði hún til utanaðkomandi aðila sem starfa náið með sveitarfélögum á borð við ráðgjafa, arkitekta, hönnuði og fleiri.
„Og svo spurði ég um spillingu,“ segir Ásdís. Hún notaði orðið ekki beint í spurningalista heldur leitaði svara um tiltekna tegund spillingar með því að spyrja þessa hópa hvort þeir þekki til dæma á síðustu þremur árum þar sem frændsemi, kunningsskapur eða pólitísk fyrirgreiðsla hafi haft áhrif á skipulagsákvarðanir sveitarfélaga.
Hún telur svörin nokkuð afgerandi. Úr hópi skipulagsstarfsfólks sögðust 58 prósent vita um fá eða fleiri tilvik. Úr hópi ráðgjafa sögðust 72 prósent þekkja til slíkra tilvika á síðustu þremur árum.
Færri könnuðust við þessa spillingu úr röðum kjörinna fulltrúa og sveitarstjóra en þó einhver.
Ekki liggi fyrir af hvaða stærðargráðu þessi spilling er og hversu miklar fjárhæðir voru í húfi. Eitthvað sem Ásdís segir að kalli á frekari skoðun.
Við og við beri á þessum málum á síðum fjölmiðla en Ásdís segir enga afgerandi niðurstöðu fást í þeim málum heldur er meira um að ræða ásakanir sem ekki fást staðfestar.
Almenningur treysti því að vel sé farið að málum og að eftirlit sé viðhaft í röðum kjörinna fulltrúa og eftirlitsaðila. Ásdís segir að slíkir varnaglar séu þó mögulega ekki að virka sem skildi.
„Það eru kannski ýmsar brotalamir í að þessi kerfi virki“