„Við erum að fara að skipta út mælum fyrir heitt vatn og rafmagn í húsinu þínu. Við komum 15/2/2024 kl. 12:00 til 14:00. Þú þarft ekki að svara eða hringja og staðfesta móttöku – bara tryggja aðgang.“
Árni segir að þarna hafi verið látið í það skína að fólk eigi ekkert val en raunin virðist þó vera önnur ef marka má skrif hans.
„Ég sendi strax póst til baka þar sem ég fór fram á að þeir sýndu mér það svart á hvítu að mér bæri skylda til að taka við snjallmælunum. Ég tók það sérstaklega fram að ekki væri nóg að senda mér einhverja runu af laga- eða reglugerðanúmerum, það væri ekki mitt hlutverk að liggja yfir einhverjum hundruðum blaðsíðna af laga- og reglugerðatexta. Samt gerðu þeir akkúrat það, sendu mér lista með 10 reglugerðanúmerum sem ég átti að eyða tíma mínum í að lesa. Það er nefnilega plagsiður stofnana að svara óþægilegum erindum með því að drekkja fólki í skriffinnsku og vonast til að það þagni.“
Árni kveðst hafa ítrekað fyrri kröfu um að þeir sýndu honum fram á með beinum tilvitnunum í lagatexta að honum bæri skylda til að taka við þessum mælum.
„Þá bregður svo við að þeir senda mér stutta texta úr þremur reglugerðagreinum, en þar er bara ekkert að finna sem skyldar mig til að taka við snjallmæli. Þessir textar segja einungis að skylt sé að veita aðgang til álesturs, eftirlits, viðhalds, eða mælaskipta,“ segir hann í grein sinni og bætir við að þetta hafi alltaf legið fyrir; Veitur hafi alltaf verið velkomnar til að sinna þessu ef svo ber undir, enda hafi verið skipt um heitavatnsmæla hjá honum fyrir örfáum árum.
Að mati Árna er uppsetning snjallmæla meiriháttar forsendubreyting á viðskiptasambandi og slíku sé ekki hægt að þvinga upp á fólk einhliða.
„Veitum tókst ekki að sýna fram á skyldu mína til að taka við snjallmælum og í síðustu skilaboðum Veitna segir því: „Veitur hafa því frestað uppsetningu hjá þeim sem vilja alls ekki taka á móti þeim.“
Árni á nú allt eins von á því að væntanlega verði farið í að styrkja lagagrunninn, þannig að hægt verði að setja upp snjallmæla í lögreglufylgd.
En af hverju er hann á móti þessum snjallmælum? Árni segir í grein sinni:
„Snjallmælarnir eru Trójuhestar. Þeir eru táknmynd alls þess sem miður hefur farið í orkumálum okkar á undanförnum misserum. Þeir eru forsenda markaðsvæðingar orkunnar. Höfum við beðið um þessa markaðsvæðingu? Við eigum orkuna, hún er framleidd í okkar virkjunum og leidd um lagnakerfi sem við eigum líka. Markaðsvæðingin felst sem sagt í því að við (fólkið í landinu) seljum siðblindum hrunverjum á amfetamíni orkuna í heildsölu, til þess eins að kaupa hana af þeim aftur á uppsprengdu verði,“ segir hann meðal annars og bætir við að snjallmælavæðingin sé ekki til þess að spara okkur að lesa af mælum.
„Snjallmælavæðingin er ekki „eðlileg“ endurnýjun mæla. Þá væru snjallmælar settir upp í stað hinna jafnóðum og endurnýjunar er þörf á löngum tíma. Nei, það liggur á að keyra þessa milljarðaframkvæmd í gegn, helst án umræðu á sem skemmstum tíma, því þegar allir eru komnir með snjallmæla verður kátt í höllinni og „markaðsvæðingin“ getur hafist fyrir alvöru. Milljarðarnir, kostnaðurinn við mælaskiptin, eru fjárfesting sem markaðsöflin ætla sér að ná margfalt til baka, og sannið til, þess verður ekki langt að bíða, því markaðsöflin sem maka krókinn á orkunni okkar hafa litla þolinmæði að bíða eftir gróðanum. Stöndum saman – stöðvum þessa þvælu. Strax.“