„Sú venja hefur myndast inni á fésbókinni að fólk birtir myndir af kössum fullum af dóti eða þá húsgögnum fyrir utan dyrnar hjá sér og auglýsir að fólk megi hirða það ef það hefur áhuga á því. Þetta er endemis ósiður sem ætti að leggja af sem fyrst, því að þetta skapar hættu fyrir fólk sem t.d. stendur í flutningum og setur kassa eða húsgögn út á pall hjá sér svo að bílstjóri flutningabílsins, sem stundum gerir þetta líka, geti sett það inn í bíl,“ segir hún í pistlinum.
Hún kveðst hafa lesið sögur og lýsingar á Facebook af því að menn sem hafa staðið í flutningum og látið dót út á pallinn hjá sér hafi jafnvel séð bíla stoppa við húsið og hirt hlutina, í einu tilviki til dæmis út úr flutningabíl, og ekið með þá í burtu.
„Hámark ósvífninnar, verð ég að segja, að taka dót út úr flutningabílnum þar sem greinilega má sjá að fólk stendur í flutningum en ætlar ekki að senda í Góða hirðinn. Ég bið því fólk að athuga þetta og gera ekki fólki sem stendur í flutningum milli húsa erfitt fyrir.“
Hvetur hún fólk sem hefur áhuga á því að taka svona hluti að gá fyrst inn á Facebook hvort viðkomandi hafi nokkuð auglýst að það megi taka þetta.
„Ef ekki, þá má augljóst vera að menn standi í flutningum sem setja eigur sínar út, og flutningabílstjórinn jafnvel að taka það til þess að setja inn í bílinn hjá sér. Eða hvað á það eiginlega að þýða að koma fólki í svona vonda stöðu með svona uppákomum og vitleysu, því að svona framkoma er endemis vitleysa og ósiður. Það er ekki hægt að kalla þetta annað. Svo að hættið þessu – í öllum bænum. Þetta gengur ekki lengur. Það segir sig sjálft.“