Á morgun, miðvikudaginn 31. janúar, verður fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjavíkur, í máli ungrar konu sem ákærð hefur verið fyrir tilraun til manndráps.
Ákært er vegna atviks sem átti sér stað laugardaginn 24. september árið 2022, einhvers staðar á höfuðborgarsvæðinu (upplýsingar hreinsaðar úr ákæru). Meint árás átti sér stað inni í bíl og fyrir utan bílinn. Konan, sem fædd er árið 2001, er sökuð um að hafa stungið aðra konu fimm sinnum í líkamann með hnífi, með þeim afleiðingum að hún hlaut skurði á vinstri öxl neðan viðbeins, hægra læri, hægri upphandlegg, vinstra handarbaki og baugfingri hægri handar.
Héraðssaksóknari krefst þess að hin ákærða verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Fyrir hönd brotaþolans er krafist miskabóta upp á tæplega 2,8 milljónir króna. Einnig er þess krafist að hin ákærða greiði málskostnað vegna réttargæslumanns brotaþolans.