Atvikið átti sér stað á veitinga- og skemmtistaðnum Götubarnum á Akureyri og var konan ákærð fyrir að ráðast á aðra konu með því að slá hana í andlitið. Brotnuðu tvær tennur í munni konunnar sem ráðist var á og hlaut hún tveggja sentímetra skurð innan á efri vör að auki.
Á meðal gagna málsins var upptaka úr öryggismyndavél Götubarsins sem sýndi hluta atburðarásarinnar.
„Á upptökunni sést brotaþoli ganga til ákærðu og ræða við hana. Í samtalinu virðist ákærða æsast upp og brotaþoli hörfar til baka. Ákærða fylgir henni eftir með flösku í hönd. Þær hverfa úr mynd skamma stund, en síðan sést fólk hópast að þeim og ákærða er tekin í burtu. Brotaþoli sést koma hálf vönkuð aftur í mynd og blóð sést leka frá munni hennar,“ segir í dómnum.
Konan sem var ákærð neitaði gefa skýrslu um sakarefnið fyrir dómi og sagði í skýrslutöku hjá lögreglu að hún sé gjörn á að gleyma atvikum sem hún vill ekki muna.
Konan sem ráðist var á sagðist hafa farið á Götubarinn umrætt kvöld eftir starfsmannadjamm fyrr um kvöldið til að athuga hvort einhverjir félaga hennar væru þar.
Þegar inn var komið hafi hún hitt fyrir konuna sem réðst á hana og var hún með frænda sínum á staðnum. Hafði konan sem ráðist var á átt sökótt við frændann vegna meintrar kynferðislegrar misnotkunar hans á mágkonu hennar.
Frændinn sem var á staðnum sagði í skýrslu fyrir dómi að hann hafi staðið við barinn þegar atvikið átti sér stað. Konan hefði margsinnis haft uppi ásakanir í hans garð um að hann væri „nauðgari“ og kallað hann það á opinberum vettvangi. Þetta kvöld hafi hún gert það og ákærða fengið nóg og látið heyra í sér. Sagðist frændinn hafa þurft að leita sér sálfræðihjálpar vegna ásakana brotaþola og þær lagst þungt á hann. Hafi ákærða séð hann brotna niður vegna þeirra.
Konan sem ráðist var á neitaði að hafa kallað manninn „nauðgara“ umrætt kvöld.
Í niðurstöðu dómsins kemur fram að framburður brotaþola hafi verið skýr, trúverðugur og afdráttarlaus.
„Að mati dómsins dregur það ekki úr trúverðugleika framburðarins að brotaþoli hafi í fyrstu talið ákærðu hafa slegið sig með flösku, en síðar með glasi, en brotaþoli lýsti því að árásin hafi verið fyrirvaralaus og verður að ætla að brotaþola hafi ekki gefist mikið ráðrúm til að aðgæta hverju ákærða hafi haldið á. Hefur ekki þýðingu við úrlausn málsins hvort um var að ræða flösku eða glas. Leitaðist brotaþoli í framburði sínum við að fullyrða ekki meira en hún taldi sig vera fullvissa um. Þá dró hún frekar úr afleiðingum árásarinnar, en að gera meira úr þeim. Hefur framburður brotaþola verið stöðugur.“
Að sama skapi var það mat dómsins að neitun ákærðu hafi verið ótrúverðug.
Var konan dæmd til að greiða 735 þúsund krónur í sakarkostnað og fórnarlambi sínu 704 þúsund krónur. Þá var viðurkennd skaðabótaskylda vegna líkamstjóns sem hún olli en að mati tannlæknis getur endanlegur skaði vegna tannanna sem brotnuðu ekki komið fram fyrr en fimm árum seinna.
Fangelsisdómurinn er skilorðsbundinn til tveggja ára.