Frá því að samningurinn rann út hafa Rússar gert harðar árásir á kornbirgðageymslur og útflutningshafnir í Úkraínu. Kenneth Buhl, kapteinn og hernaðarsérfræðingur hjá danska varnarmálaskólanum, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að úkraínskar hafnir séu mjög berskjaldaðar fyrir loftárásum Rússa því loftvarnir hafi að mestu verið settar upp lengra inni í landi til að verja Kyiv.
Kornsamningurinn gerði Úkraínu kleift að flytja korn á öruggan hátt fram hjá rússneskum herskipum í Svartahafi. Nú hafa Rússar tilkynnt að öll flutningaskip, sem nálgast úkraínskar hafnir, verði talin flytja búnað fyrir úkraínska herinn.
Buhl sagðist telja að Úkraínumenn hafi mjög takmarkaða möguleika á að hefja kornútflutning á nýjan leik um Svartahaf. Besti möguleiki þeirra sé líklega að setja upp skipalest skipa frá hlutlausum ríkjum, þar á meðal NATO-ríkjum, en það sé ekki hættulaus aðgerð. Líklega séu sprengjur í sjónum og Rússar bæti líklega jafnt og þétt við þær. Einnig séu rússneskir kafbátar á svæðinu. „Leyfðu mér að orða þetta svona: Ef ég væri á herskipi í Svartahafi myndi ég vera með björgunarvestið innan seilingar.“
Hann sagði að aðgerðir Rússa síðustu daga séu „augljóslega ólöglegar“. Ekki sé löglegt að ráðast á innviði, sem hafa ekki hernaðarlegt gildi, og ekki sé löglegt að hindra siglingar Úkraínumanna til og frá úkraínskum höfnum. Hins vegar hafi Rússar möguleika á að setja upp löglegt hafnbann en það krefjist þess að þeir lýsi yfir stríði en það fellur ekki vel að frásögn þeirra að um „sérstaka hernaðaraðgerð“ sé að ræða.
Útflutningur á hveiti er grunnstoðin í úkraínsku efnahagslífi og á því stóran þátt í að fjármagna stríðsrekstur Úkraínumanna. Af þeim sökum reyna Rússar nú að stöðva þennan útflutning.
En þetta getur verið sjálfsmark að mati Buhl: „Verð á korni mun hækka og það mun valda vandræðum í mörgum löndum sem hafa ekki enn tekið afstöðu í deilu Rússa og Úkraínumanna. En það getur í raun þýtt að löndin noti tækifærið til að sjá hver er í raun og veru óþokkinn í þessari deilu. Með þessu geta Rússar hugsanlega hafað skotið sjálfa sig í fótinn.“