Versluninni og kaffihúsinu Lóla Flórens sem rekin hefur verið á Garðastræti 6 í Reykjavík hefur verið lokað. Vefverslunin mun lifa áfram.
Í færslu sem eigendurnir Íris Ann Sigurðardóttir og Svava Ástudóttir skrifa á Facebook segja þær að ástæðan sé að ekki hafi náðst að semja við húseigendur um áframhaldandi leigu.
„Elsku öll sem hafið fylgt okkur síðustu árin á Galdrastræti. Við þökkum kærlega fyrir allar frábæru stundirnar sem við áttum með ykkur. Verslunin og kaffihúsið okkar fallega hefur vaxið í ykkar örmum og við átt ótrúlegar stundir saman. Listasýningar, gjörningar, galdramessur, tarotlestur, bókaútgáfur og fjölmörg samkvæmi með mismunandi áherslum. Það hefur verið hlegið og grátið.
Fjölbreytt skemmtun í alla staði og við þakklátar fyrir traustið að velja Flórens til að halda utan um ykkur. Samheldni og samkennd hefur einkennt staðinn okkar,“ skrifa eigendurnir, en Lóla Flórens opnaði á vormánuðum 2022.
„Við höfum nú þurft að loka versluninni vegna þess að leigusamningar tókust ekki við húseiganda, það var allt lagt til að ná samningum en án árangurs. Lóla og Luna eru báðar farnar í hvíld. Heilsuhælið í Hveragerði eða Hálendið hljómar sem næsti viðkomustaður eftir baráttu síðustu mánaða að bjarga því sem bjargað verður. Lóla, Luna og Lady Flórens kveðja í bili,“ skrifa eigendurnir, en Luna var systurstaður sem rekinn var á Grandagarði.
Íris Ann og Svava eru þó ekki af baki dottnar og segja aldrei að vita nema einhver systirin leggi á landsbyggðina, „hver vill taka við okkur nornunum?“
Þær segja að Lady Flórens pop-up bíllinn fari af stað aftur næsta sumar og netverslun florens.is verður áfram opin.
„Við bjóðum að sjálfsögðu uppá tarotlestur ef vantar öðruvísi skemmtun í einkasamkvæmi eða vinkonur vilja breyta til í saumaklúbbnum. Megi hátíðin vera okkur fallegur farvegur og ljós lýsa til okkar allra. Við þökkum fyrir okkur, Íris og Svava.“