Samtökin urðu sífellt herskárri og 1991 stofnuðu þau hernaðararminn Ezzedine al-Qassam. Talið er að um 40.000 menn tilheyri hernaðararminum.
Hamas eru á lista ESB og Bandaríkjanna yfir hryðjuverkasamtök.
Hin mikla spenna á milli Hamas og Ísraels óx mikið eftir að Hamas tók við völdum á Gaza eftir kosningarnar 2006. Margoft hefur komið til átaka á milli Hamas og Ísraels síðan.
Það hefur verið frekar rólegt yfir átökum Ísraels og Hamas síðustu árin en í október færðust þau á nýtt stig þegar Hamas komu Ísrael á óvart að morgni 7. október þegar vígamenn samtakanna brutust í gegnum öryggisgirðinguna á milli Gaza og Ísraels og myrtu á annað þúsund manns og tóku fjölda til fanga.
Hvað varðar markmið Hamas þá er hugmyndafræði samtakanna byggð á hugmyndafræði Múslímska bræðralagsins í Egyptalandi og er markmiðið að Íslamsvæða palestínska samfélagið. En fyrst og fremst eru Hamas þjóðernissinnuð samtök sem hafa að aðalmarkmiði að koma frjálsu ríki Palestínumanna á laggirnar. Í stefnuyfirlýsingu samtakanna kemur fram að þau berjist gegn gyðingaríkinu Ísrael og að hryðjuverk, þar sem óbreyttir borgarar eru drepnir og teknir sem gíslar, séu lögmætur hluti af baráttunni.