Birgir Sævarsson tónlistarmaður, Biggi Sævars, er í helgarviðtali hjá Mannlífi. Hann hefur þráfaldlega verið sakaður um kynferðisbrot en hingað til notið nafnleyndar í fréttaflutningi af þessu málum. Núna stígur hann hins vegar fram, ræðir ásakanirnar og hafnar þeim.
Í september síðastliðnum staðfesti Landsréttur sýknudóm héraðsdóms af ákæru héraðssaksóknara á hendur Bigga um nauðgun. Þrjár aðrar konur hafa kært hann fyrir nauðgun, rannsókn tveggja mála hefur verið felld niður án ákæru, en DV er ókunnugt um afdrif fjórðu kærunnar.
Í viðtalinu lýsir Biggi sig saklausan af öllum ásökunum um kynferðisbrot. Hann lýsir tveimur sjálfsvígstilraunum sem hann framdi vegna vanlíðunar yfir ásökunum og greinir frá því að hann hafi verið rekinn úr starfi tónlistarkennara í Foldaskóla vegna ásakananna. Einnig fái hann ekki lengur verkefni sem tónlistarmaður en hann kom áður reglulega fram á veitingastaðnum Catalinu í Kópavogi.
Biggi er meðal annars sakaður um að hafa nauðgað vinkonu sinni í sínu eigin brúðkaupi á Ítalíu. Meintur þolandi hans rakti málið í viðtali við Eddu Falak í Eigin konum en Biggi kemur núna fram með sína útgáfu af málinu.
DV hefur fjallað töluvert um sýknudóm yfir Bigga af ákæru um nauðgun gegn vinkonu sinni. Konan fór heim með honum eftir gleðskap og stóð í þeirri meiningu að þangað myndi koma fleira fólk. Hún sofnaði heima hjá honum og sagðist hafa vaknað við að hann var að hafa við hana samfarir.
Daginn eftir ræddu þau saman á Messenger þar sem hann baðst afsökunar en hún svaraði með hörðum ásökunum. Dómurum í héraðsdómi og Landsrétti þótti ekki sannað með óyggjandi hætti að textaspjallið vísaði til nauðgunar. Biggi sagðist hafa beðið afsökunar á því að hafa átt þátt í framhjáhaldi en á þessum tíma var konan í sambúð með öðrum manni. Textaskilaboðin voru eftirfarandi, Biggi skrifaði:
„að þú viljir ekki tala við mig aftur og ekki neitt.t…skil þig fullkomlega..og ég er enn ekkert buinn aðheyra í […]…bíð enn eftir því, mátt alveg endilega segja honum að hringj aí mig…en allavega skrýtið að alltíeinu þekki ég þig ekki…samt sko minnir mig allt sem gerist í kringum mig á þig… hélt að ég væri með fráhvarfseinkenni og söknuð þegar að […] minnkaði að tala við mig…vá hvað þá þetta…er mjög hræddur um að við séum miklu betri vinir en við heldum…þú þarft ekki en ef þú vilt heyra í mer, geturu sent skilaboð hér…sakna þín A mín og ég get aldrei byrjað að ýminda mer hvernig ég get beðist fyrirgefningar.“
Konan skrifaði hins vegar eftirfarandi:
„Alla tíð hef ég staðið við bakið á þér X og tekið við skítnum sem að aðrir hafa að segja um þig. Ég hef ALLTAF og þá er ég að tala um ALLTAF tekið upp hanskann fyrir þig í sambandi við allt kjaftæðið sem hefur verið sagt um þig. Ég áleit þig sem minn besta vin og aldrei hefði mig órað fyrir því að þú gætir gert manneskju svona hlut. Eina sem að mig langar að segja við þig er að ég vill aldrei tala við þig aftur fockings hálfvitinn þinn. Þú ert gjörsamlega búin að fara yfir öll þau strik sem er mögulega ægt að fara yfir, ég hef akkurat ekkert álit á þér og hvað vináttu okkur varðar er hún búin. hættu síðan að biðja mig um að skila því til […] að hann eigi að hringja í þig, ef að þú villt tala við hann drullastu þá bara til þess að hringja í hann sjálfur! ég vill líka taka fram að […] er ekki eini maðurinn sem að veit af þessu, […] og […] vita þetta líka og ég get fullvissað þig um það að þeir eru ekki sáttir. Ég trúi því ekki einu sinni að þú dirfist að halda það að við verðum vinir aftur, ertu virkilega það siðblindur?“
Sýknudómurinn í Landsrétti féll í september síðastliðnum. Sjá nánar hér.
Fréttinni hefur verið breytt.