Ökumaður var stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, hann var handtekinn og fluttur til blóðsýnatöku. Í dagbók lögreglu í morgun kemur fram að við nánari athugun reyndist umræddur ökumaður ekki hafa mætt til afplánunar í fangelsi eins og til stóð. Í kjölfarið var hann því vistaður í fangaklefa og stendur til að hafa samband við fangelsismálayfirvöld í dag. Má ætla að í kjölfarið hefji maðurinn afplánun eins og gert var ráð fyrir og mögulega náði hann sér í refsiauka í kaupbæti.
Þá var tilkynnt um bruna í bifreið á Miklubraut þar sem bifreiðin varð alelda. Blessunarlega komust farþegar bílsins út úr honum og því urðu engin slys á fólki og gekk slökkvistarf hratt fyrir sig.