En þegar Wagnerliðar áttu 200-300 km ófarna til Moskvu var samið um að þeir hættu uppreisnartilburðum sínum. Í staðinn átti Prigozhin að fara til Belarús. Hann fyrirskipaði sínum mönnum að snúa við og hætta uppreisninni.
Óhætt er að segja að algjör ringulreið og óvissa hafi ríkt vegna málsins og raunar ríkir enn mikil óvissa varðandi það.
Wagnerliðar tóku þátt í mörgum af hörðustu og blóðugustu orustunum í Úkraínu fram að uppreisninni skammvinnu. Samkvæmt því sem bandaríska varnarmálaráðuneytið Pentagon segir þá hafa Wagnerliðar ekki snúið aftur til Úkraínu eftir uppreisnina.
Þeim stóðu þrír valkostir til boða: Þeir gátu valið að fara í útlegð í Belarús með Prigozhin, þeir gátu gengið til liðs við rússneska herinn eða farið heim.
En hvað varð um málaliðana? Er Wagnerhópurinn enn til?
Eftir uppreisnina sögðu margir alþjóðlegir hernaðarsérfræðingar að Wagnerhópurinn, eins og við þekkjum hann, væri búinn að vera.
Niklas Rendboe, sérfræðingur hjá danska varnarmálaskólanum, sagði í samtali við Danska ríkisútvarpið að hugsanlega hafi þessir sérfræðingar rétt fyrir sér því lítið hafi heyrst af Wagnerhópnum síðan uppreisninni lauk.
Í síðustu viku tilkynnti rússneska varnarmálaráðuneytið að Wagnerliðar væru enn að afhenda rússneska hernum vopn sín. Með tilkynningunni fylgdi myndband þar sem flugskeyti og önnur þungavopn, sem Wagnerliðar voru sagðir hafa afhent hernum, voru sýnd. Um 2.000 vopn og 2.500 tonn af skotfærum var að ræða.
Opinberlega þá er Wagnerhópurinn ekki til því samkvæmt rússneskum lögum er óheimilt að starfrækja málaliðafyrirtæki. En öllum er ljóst að rússnesk stjórnvöld hafa vitað um tilvist Wagner og raunar nýtt sér þjónustu fyrirtækisins árum saman. Pútín viðurkenndi meira að segja nýlega að stjórnvöld hafi greitt fyrir þjónustu Wagner.
Rendboe sagði að það sem er að gerast núna sé að verið sé að reyna að binda enda á tilvist Wagner og flytja liðsmennina yfir í aðrar hersveitir þar sem sé hægt að hafa betri stjórn á þeim. Hann benti á að það sé ekki aðeins í Úkraínu sem Wagnerliðum hafi fækkað, það hafi einnig gerst í Afríku en þar hefur hópurinn verið áberandi síðustu misseri og í Miðausturlöndum.
Hann sagði að Wagnerhópurinn sé enn til sem samtök, það sé ekki bara hægt að stöðva starfsemi hans á einni nóttu en margt bendi til að Rússar séu að reyna að ná tökum á hópnum og stöðva starfsemi hans í hinum ýmsu löndum.