Árum saman hafa mörg þúsund Wagnerliðar verið til staðar í Afríku og verið fulltrúar Rússa þar í landi. Þeir hafa aðstoðað leiðtoga í Líbíu, Súdan, Mósambik, Miðafríku lýðveldinu, Malí og Búrkína Fasó við að halda völdum. Þeir hafa verið orðlagðir fyrir að hafa beitt miklu ofbeldi, stundað nauðganir og að hafa staðið fyrir áróðursherferðum.
Rússar vilja gjarnan halda stöðu sinni í Afríku en eftir að Prigozhin gerði skammlífa uppreisn gegn Vladímír Pútín í júní er Wagnerhópurinn líklega ekki vænlegasti valkosturinn til að annast rússneska hagsmuni í Afríku.
Þetta er mat Flemming Splidsboel, sérfræðings hjá dönsku hugveitunni DIIS. Í samtali við Danska ríkisútvarpið sagði hann að Rússar verði áfram til staðar í Afríku, ef þeir hafa getuna til þess, en óvíst sé að það verði Wagnerliðar sem verði fulltrúar þeirra þar.
Eins og kunnugt er þá lét Prigozhin af uppreisnartilburðum sínum og féllst á að fara til Hvíta-Rússlands. Í kjölfarið hafa rússnesk yfirvöld gert harða hríð að fyrirtækjum hans og reyna að láta líta út fyrir að hann sé ansi óvandaður pappír.
Niklas Møller Rendbo, sem starfar hjá danska varnarmálaskólanum og sérhæfir sig í málefnum Wagnerhópsins, sagði að útlitið sé ekki bjart hjá Wagnerhópnum í Afríku. Líklega verði reynt að skipta um lykilmenn hjá Wagner og reynt verði að finna önnur málaliðafyrirtæki sem geta tekið við verkefnunum í Afríku. Fyrirtæki sem eru ekki með misheppnaðar uppreisnartilraunir á bakinu.
Hann sagðist ekki telja það möguleika fyrir Rússa að hætta allri starfsemi sinni í Afríku því ráðamenn í Kreml njóti góðs af. Til dæmis séu það peningarnir sem Afríkuríki greiði fyrir þjónustu Wagnerliða og annarra Rússa og einnig hafi borist fréttir af því að Wagner hafi tekið við ábatasömum námurekstri í mörgum Afríkuríkjum.