Sara Oskarsson, listakona og fyrrverandi þingmaður Pírata, hafði verið meira og minna veik í tvö ár, en gat enga skýringu fundið á veikindunum. Eiginmaður hennar, kvikmyndaframleiðandinn Andri Thor Birgisson, fór svo líka að finna fyrir veikindum sem og nýfædd dóttir þeirra. Skýringin á veikindunum kom svo þegar hjónin ætluðu að ráðast í framkvæmdir á húsi sínu og fundu þá myglu.
Sara fjallar um málið í færslu á Facebokk og veitti góðfúslega leyfi fyrir að færslunni yrðu hér gerð skil.
„Nú er það svart….mygla. Ég var búin að vera veik í 2 ár, meira og minna. Fyrir utan óútskýrðu veikindin pikkaði ég upp allar flensur sem ég komst í tæri við. Börnin búin að vera veik alltaf þegar að þær voru hjá okkur. Magaverkir, höfuðverkir, slappleiki. Og loks Andri líka. „Velkominn í klúbbinn sagði ég við hann”. Ég vissi bara ekki hvaða klúbbur þetta var.“
Dóttir þeirra hjóna, Apríl Nótt, sem fæddist í mars fór svo líka að veikjast en einkenni hennar hurfu þegar hún fór í pössun í öðru húsnæði, en sneru svo aftur þegar hún kom heim. Sjálf furðaði Sara sig á veikindunum. Hún fór í blóðprufur, talaði við lækna, sérfræðilækna, ljósmæður og jafnvel tannlækna. En enginn skýring fékkst, nema þá kannski að Sara þyrfti að taka til í lífsstíl sínum og hreyfa sig meira. Engum datt í hug að orsökin gæti verið mygla.
Sara segist hafa fundið fyrir eftirfarandi einkennum, en listinn sé þó ekki tæmandi.
Sara velti fyrir sér hvort hún væri í kulnun, eða hvort að þetta væri út af meðgöngunni. Kannski væri þetta vefjagigt, sjálfsónæmi eða jafnvel krabbamein. Hana hafði þó grunað myglu þar sem hún hafði á þingi unnið með þingsályktunartillögu sem Halldóra Mogensen lagði fram um raka- og mygluskemmdir. Hafði hún heyrt helstu sérfræðinga landsins lýsa mygluvandamálum í íslenskum húsum og þá ekki síst nýbyggingum.
„Vegna óvandaðs frágangs, efna sem henta ekki íslenskum aðstæðum, loftræstivandamálum og viðhaldsleysis. Heyra að minnsta kosti 60 % bygginga á Íslandi eru með þetta vandamál – heyra allt um líkamlegu einkennin.
Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins var lögð niður eða er ekki starfandi og eftir það fór eftirlit fyrir íslenskar aðstæður niður og samfélagið allt blæðir fyrir það. Og þetta lýðheilsuvandamál bara versnar.“
En heima hjá henni var þó ekkert að sjá og engin lykt sem gaf myglu til kynna. Sara píndi sig því áfram.
„Ætluðum svo í smá framkvæmdir. Byrja á því að rífa parketið upp. Og 5 mínútum seinna var ég byrjuð að kúgast, greip nokkra hluti og þurfti svo að hlaupa út úr íbúðinni.
Meira og meira tekið. Öll íbúðin morandi í myglu.
Málið upplýst.“
Sara og fjölskylda fluttu því út af heimilinu fyrir tveimur vikum síðan og segir Sara að ótrúlega margt og gott fólk hafi hlaupið undir bagga með fjölskyldunni og stutt þau. Þakkar hún þeim aðilum gífurlega vel fyrir. Nú þarf að taka íbúðina í gegn, en á meðan eru þau í það minnsta örugg og heilsan að snúa til baka með hraði.
„Tilfinningin líkust því að hafa verið að synda í gruggugu vatni en núna í tæru. Andri er auðvitað ótrúlegur og það er lyginni líkast hvað íbúðin er komin langt, hún var gerð fokheld alveg niður að steini, og svo frábærir iðnaðarmenn og verktakar sem við erum með – flytjum aftur inn eftir 2 vikur Andri er jú superhuman og er í fullri vinnu á meðan. Hetjan mín..
Þess má geta að flestir þeir iðnaðarmenn sem hafa verið að vinna við að rífa niður og þrífa þarna hafa veikst við vinnuna ÞRÁTT fyrir að hafa verið í hlífðarbúnaði!
Við erum komin langt með að henda ÖLLU sem við eigum. Allri búslóð, fötum, smáhlutum – allt nema vegabréfið og nokkrir ættargripir í raun.“
Sara segist ekki upplifa þetta sem áfall heldur frekar sem ævintýri. Áfallið hafi heldur verið það að missa heilsuna og finna enga skýringu.
„Á meðan við höfum hvort annað finnum við alltaf út úr hlutunum. Við erum heimili hvors annars.
Ef að þú tengir við þessi veikindi vil ég hvetja þig til að hafa þennan möguleika í huga sem orsök. Þetta er eitur.“
Í samtali við DV segir Sara að um gríðarlegt lýðheilsumál sé að ræða og hafði hún aldrei trúað því að mygla gæti gert fólk veikt fyrr en hún lenti sjálf í þessu.
„Og það klárlega vantar endurmenntun hjá heilbrigðisstéttinni á Íslandi um þessa tegund veikinda. Ótrúlegt að enginn skyldi kveikja, ég var með öll dæmigerð einkenni myglueitrunar. Og seinna öll fjölskyldan. Lífsgæði okkar voru stórlega skert í hartnær tvö ár.“