fbpx
Laugardagur 16.ágúst 2025
Fréttir

Jóhannes Tryggvi kominn í opið fangelsi

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 8. mars 2023 10:57

Jóhannes Tryggvi

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jó­hann­es Tryggvi Svein­björns­son, sem hlaut sjö ára fangelsisdóm fyrir kynferðisbrot gegn fimm konum, er kominn í afplánun á Kvíabryggju. Heimildin greinir frá.

Kvíabryggja er skilgreint sem opið fangelsi, þar eru ekki rimlar fyrir gluggum og svæðið er afgirt eins og hefðbundið sveitabýli. Jóhannes hóf afplán­un á Litla-Hrauni um mitt síð­asta ár en var flutt­ur á Kvía­bryggju nú í fe­brú­ar.

Sjö ára fangelsi fyrir brot gegn fimm konum

Í janúar 2021 var Jóhannes dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness í fimm ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað fjórum konum sem leituðu meðferðar hjá honum við stoðkerfisvanda á árunum 2009 til 2015. Hann áfrýjaði dómnum til Landsréttar sem í nóvember 2021 þyngdi dóminn í sex ár. Í ársbyrjun 2022 var Jóhannesi dæmdur tólf mánaða hegningarauki í Héraðsdómi Reykjaness þegar hann var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn fimmtu konunni. Hæstiréttur hafnaði málsskoti Jóhannesar, meðal annars með þeim rökum að niðurstaða Landsréttar væri að verulegu leyti byggð á sönnunargildi munnlegs framburðar og það mat verði ekki endurskoðað hjá Hæstarétti.

Allir fangar eiga rétt á afplánun í opnu fangelsi

Páll Winkel fang­els­is­mála­stjóri segist ekki geta tjáð sig um mál einstakra fanga, en seg­ir alla hefja afplán­un í lok­uðu fang­elsi. All­ir fang­ar eigi síð­an mögu­leika á því að afplána í opnu fang­elsi, óháð brota­flokki, svo lengi sem þeir hafi ekki gerst sek­ir um aga­brot í afplán­un­inni. „Allir hefja afplánun í lokuðu fangelsi. Ef menn eru agabrotalausir eiga þeir möguleika á að fara síðan í opið fangelsi, að þeim tíma loknum á áfangaheimili og eru síðan heima hjá sér með ökklaband.“

Vísir birti nýlega frétt um söfnunarsíðu Jóhannesar en hann hyggst fara með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

Tveir brotaþola hans, Aníta Hauksdóttir og Þórunn Antonía Magnúsdóttir, birtu í kjölfarið færslur á Facebook þar sem þær lýstu furðu sinni og hneykslun með að fjölmiðlar gæfu geranda þeirra platform til að tjá sig. Jóhannes telur sig hins vegar hafa verið sakfelldan án dóms og laga, þrátt fyrir að bæði Héraðsdómur Reykjaness og Landsréttar hafi dæmt hann sekan. Endurupptökudómstóll hafnaði í byrjun mars kröfu hans um að dómur Landsréttar yrði endurupptekinn.

Aníta stóð í þeirri trú að gerandi hennar fengi refsingu – „Éttu skít Jóhannes“

„Þegar þú brýtur á konu brýtur þú á framtíð hennar, börnum hennar, huga, athygli, ástarlífi, heilsufari, starfsframa“

Í frétt Heimildarinnar kemur fram að miðlinum hafi borist ábendingar þar sem fólk undrast að Jóhannes sé kominn í opið fangelsi svo skömmu eftir að hann hóf afplánun, ekki síst í ljósi þess að brot hans voru alvarleg og ítrekuð, auk þess sem hann sýni enga iðrun eða taki ábyrgð á brotum sínum.

Rúmlega tuttugu konur kærðu Jóhannes fyrir sambærileg brot þegar þær voru hjá honum vegna meðhöndlunar á stoðkerfisvanda. Enn fleiri konur hafa lýst brotum af hendi Jóhannesar án þess að hafa lagt fram kærur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt