Aðalsteinn Svan Hjelm, íbúi á Oddeyrargötu á Akureyri, er í fararbroddi Oddeyrargötusamtakanna, sem berjast fyrir úrbótum umferðaröryggis í götunni.
„Kveikjan að þessu hjá mér persónulega var þegar það var næstum keyrt á son minn fyrir þremur árum,“ segir Aðalsteinn í viðtali við Akureyri.net. Sonur Aðalsteins hringdi í hann í áfalli þegar hann var næstum lentur fyrir bíl við heimili þeirra. „Hann bókstaflega sagði að hliðarspegillinn hafi slegist utan í nefið á honum. Og það var bíll sem var ekki á 30.“
Sonur hans var þá að ganga út frá heimili þeirra á milli bíla á bílastæðinu, en engin gangstétt er þeim megin sem hús þeirra er. „Ef það eru ekki bílar í bílastæðunum hérna nær húsinu okkar þá eru menn að keyra á 60 km hraða og strjúkast utan í runnann hjá okkur. Á sextíu! Það þarf ekkert að klára þá sögu ef það er lítið barn sem hleypur fyrir horn.“
Öryggi íbúa ábótavant vegna mikillar umferðar og mikils umferðarhraða
Aðalsteinn sem búsettur hefur verið í götunni síðan árið 2018 segir í viðtalinu að hann hafi fljótlega áttað sig á að öryggi gangandi vegfarenda, íbúanna við götuna og ekki síður annarra sem ekki þekkja aðstæður í götunni, var ábótavant vegna mikillar umferðar og mikils umferðarhraða.
„Mér finnst þetta óásættanlegt. Ég er ekki ennþá kominn á það stig að fórna höndum og hreinlega bara flytja. Ég er Sunnlendingur sjálfur, ég gæti bara farið og leyft þá götunni að vera svona áfram næstu áratugi. Ég er ekki þannig týpa. Ég ætla að bjarga þessu mannslífi sem er þarna, einhvers staðar í framtíðinni að hverfa í götunni.“
Í frétt Akureyri.net er rakið að baráttan fyrir bættu umferðaröryggi íbúa hafi hafist fyrir 42 árum, nánar tiltekið þriðjudaginn 21. september 1980 þegar greint var frá mótmælum íbúa vegna umferðarhraða um götuna. Á þessum rúmlega fjórum áratugum hefur bílafloti Akureyringa tvöfaldast og ferðamönnum fjölgað. Gatan er í dag með 30 km hámarkshraða, en var með 50 km hámarkshraða árið 1980.
„Við þekkjum þessa umferð hérna og í hvert skipti sem mín börn fara út segi ég: passaðu þig á bílunum. Ég er að segja starfsmönnum frá því niður frá [hjá Akureyrarbæ]. Þetta eru ekki mín börn sem munu verða fyrir bíl. Þetta er kannski ykkar, þetta gæti verið frændi þinn eða bróðir þinn, fólk sem þekkir ekki aðstæður hérna.“