Olgu Kristrúnu Ingólfsdóttur brá í brún þegar hún fékk rúmlega 40 þúsund króna reikning fyrir hálftíma viðtal hjá sérfræðilækni. Þegar hún leitaði skýringa hjá Sjúkratryggingum Íslands fékk hún þau svör að þar sem samningar hafði ekki náðst við sérgreinalækna þá séu sumir þeirra farnir að rukka ansi mikinn aukakostnað.
„Ég er bara í nettu áfalli með þetta,“ segir Olga í samtali við DV. „Að þetta sé komið á þennan stað.“
Olga fór til taugalæknis samkvæmt tilvísun frá heilsugæslu sinni.
„Ég endaði á að greiða kr. 42.495 fyrir hálftíma viðtal, og ég taldi að þetta hlytu að vera mistök og ákvað því að hafa samband við Sjúkratrygginga Íslands og svöruðu þeir mér eftirfarandi:
Sæl Olga. Já því miður þá er þetta svona í dag þar sem ekki næst samningur við sérgreinalækna þá taka sumir ansi mikinn aukakostnað. Og það verður ekki endurgreiðsla á þessum auka reikningum.“
Reikningana má sjá hér fyrir neðan.
Olga segist furða sig á svarinu frá Sjúkratryggingum (SÍ) og veltir því fyrir sér hver beri ábyrgð á því að ekki hafi verið samið við sérfræðilækna og eins hvernig standi á því að sérfræðilæknar geti ákveðið sinn eigin taxta.
„Þess ber að geta að ég var send til þessa taugalæknis í gegnum heilsugæsluna hjá mér. Ég hafði því ekkert val um hvert ég færi né gat gert verðkönnum milli taugalækna.
Mér finnst þessi staða orðin mjög alvarleg. Svo er verið að tala um að það megi ekki einkavæða, en hvað er þetta annað en einkavæðing?
Mín réttlætiskennd segir að þetta sé ekki í lagi og ég er þá fyrst og fremst að hugsa um fólk sem hefur ekki efni á að leita sér lækninga hjá þessari stétt. Er þetta virkilega svona samfélag sem við viljum búa í?“
Olga veltir líka fyrir sér sundurliðaða kostnaðinum á reikningunum.
„Þar má sjá að ég er að greiða annars vegar kr. 6.366 og kr. 2.414 vegna samningsleysi við SÍ, af hverju þarf ég/við að greiða vegna samningsleysi við SÍ? Af hverju á það að koma niður á okkur?“
Það sem hafi þó gert útslagið var svarið sem hún fékk frá SÍ.
„Það sem fyllti dropann hjá mér, að vísa til þess að þetta liggi hjá sérfræðilæknunum að vera ekki búnir að semja en ekki hjá Sjúkratryggingum. Ég er bara að hugsa um fólk, almenning, sem hefur ekki efni á þessu. Eins og maður segir, erum við virkilega bara komin hingað?“
Samningar milli sérfræðilækna og Sjúkratrygginga Íslands hafa verið lausir núna árum saman eftir að síðustu samningar féllu úr gildi við áramótin 2018/2019. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, sagði á fyrstu dögum í starfi sínu að það væri mikilvægt að semja við sérfræðilækna og verkefnið væri aðkallandi.
Í ágúst sagði Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir í samtali við mbl.is að staðan væri grafalvarleg og landið ekki lengur samkeppnishæft um nýja sérfræðilækna eftir sérnám vegna skorts á samningum.
Læknafélag Íslands sagðist í september harma það áhugaleysi sem stjórnvöld hafi sýnt sjúkratryggðum þegnum landsins og ákvað hluti sjálfstætt starfandi lækna og læknastöðva að hætta að senda frá sér rafræna reikninga til Sjúkratrygginga Íslands. Það sé þá undir sjúklingum komið að senda sjálfir reikninga á Sjúkratryggingar til að freista þess að fá endurgreitt. Og jafnvel þá virðist svo vera, eins og í tilviki Olgu, að Sjúkratryggingar neiti að taka þátt.