Listakonurnar Bryndís Björnsdóttir og Steinunn Gunnlaugsdóttir hafa birt yfirlýsingu á Vísir.is þar sem þær hafna því að hafa játað þjófnað á listaverki Ásmundar Sveinssonar, styttu af fyrstu hvítu móðurinni í Ameríku, Guðríði Þorbjarnadóttur.
Styttunni hefur þó verið komið fyrir í verki eftir þær stöllur og hefur lögreglan lagt hald á verkið. Styttan af Guðríði Þorbjarnardóttur var tekin ófrjálsri hendi á Snæfellsnesi og hún sett inn í listaverk eftir Bryndísi og Steinunni, fyrir utan Nýlistasafnið.
Í grein sinni á Vísi segir listakonurnar:
„Verkið Farangursheimild – Fyrsta hvíta móðirin í geimnum var afhjúpað þann 9. apríl sl. fyrir framan Marshallhúsið í Reykjavík. Verkið samanstendur annars vegar af geimflaug, skotpalli og skilti úr brotajárni; hinsvegar af bronsafsteypu af styttunni Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku eftir Ásmund Sveinsson frá árinu 1938.
Styttuna gerði Ásmundur fyrir heimssýninguna í New York árið 1939 og byggði á sögunni af Guðríði Þorbjarnardóttur og syni hennar, Snorra. Afsteypa þessi stóð frá árinu 2000 til 2022 við Laugarbrekku, fæðingarstað Guðríðar á Snæfellsnesi. Þar var styttan sett upp í tilefni þúsund ára afmælis landafundanna svokölluðu: komu norrænna manna til heimsálfunnar sem nú heitir Ameríka.“
Listakonurnar vilja koma þrennu á framfæri, meðal annars því að þær hafa ekki játað þjófnað:
Þær stöllur segja að mjög óæskilegt sé að aðskilja listaverkin tvö eins og lögregla áformar. Geimflaugin þeirra sem nú hýsir styttuna sé besti geymslustaður hennar:
„Okkur hefur verði tilkynnt að næsta skref lögreglunnar sé að aðskilja verkin tvö. Á meðan enn er tekist á um hvað skuli gera við þann menningararf sem kjarnast í styttunni Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku, þá teljum við með öllu óskynsamlegt að skilja verkin að. Geimflaugin er að svo stöddu besti staðurinn fyrir þessa afsteypu af Fyrstu hvítu móðurinni í Ameríku. Við skorum því á lögregluna að láta ekki verða af aðskilnaðinum, heldur skila verkinu Farangursheimild – Fyrsta hvíta móðirin í geimnum óbreyttu aftur á sinn stað fyrir framan Marshallhúsið.“