Helga Sigurðardóttir er meðlimur í alþjóðlegum póstkortahópi kvenna. Hópurinn heitir Sundays, Coffee, Friends and Postcards og varð til út frá hópnum Girls Love Travel (GLT) á Facebook en þar deila konur sögum, myndum og spurningum varðandi ferðalög.
Þegar heimsfaraldur COVID-19 skall á, ákvað hópur meðlima í GLT að skiptast á póstkortum til að bæta upp fyrir hömlurnar sem á voru komnar á ferðalög.
„Áherslur breyttust síðan hjá GLT og stofnaður var hópurinn SCFP. Þar er vikulega (á sunnudögum) opnaður þráður fyrir þær sem vilja skiptast á póstkortum þá vikuna. Þátttaka fer bara eftir áhuga og getu hvers og eins,“ segir Helga.
Helga rak þó upp stór augu þegar nýjasta kortið barst henni, en það hafði orðið fyrir hnjaski í vörslum Íslandspósts.
Að póstkort verði fyrir hnjaski getur alltaf gerst, en Helga furðar sig á viðbrögðum póstsins við þessu. Þeir ákváðu nefnilega að tilkynna henni um tjónið með því að líma umfangsmikinn límmiða á póstkortið og þar með var kortið eyðilagt enn frekar.
Hún skrifaði um þetta á Facebook og veitti DV góðfúslega leyfi til að deila sögunni.
„Í ALVÖRUNNI!!!!!
Eitt er að sending hafi tjónast á leið frá sendanda til móttakanda. En að Pósturinn hafi endanlega klúðrað á ég ekki til orð (nema orð sem eru ekki birtingarhæf). Hvernig í ósköpunum datt einhverjum hjá Póstinum í hug að tilkynna mér tjón með því að líma þennan miða yfir alla myndina á póstkortinu?
Af hverju var kortið ekki sett í umslag eins og stendur á miðanum? Ekki svo langt síðan ég fékk svoleiðis frá póstinum um sendingu sem hafði blotnað! Hef kynnst ýmsu en nú á ég ekki til orð. Sumir mundu nú segja … hvaða, hvaða, þetta er nú bara póstkort! Ég er í alþjóðlegum póstkortahópi kvenna sem skiptumst á póstkortum og öll póstkortin skipta mig máli og hvað þá sendandann.“
Á límmiðanum biðst Pósturinn afsökunar á skemmdunum, en tekur þó fram að þeir greiði engar skaðabætur.
„Innihald þessa umslags er póstur sem stílaður er á þitt póstfang/frá þínu póstfangi.
Okkur þykir afar miður að sending þessi kom sködduð til landsins.
Stefna og markmið Póstsins er að veita persónulega og góða þjónustu og harmar fyrirtækið mig þau óþægindi sem þú kannt að hafa orðið fyrir.Samkvæmt skilmálum póstsins eru ekki greiddar skaðabætur fyrir bréfasendingar.
Engin ábyrgð er tekin á almennum bréfum, hvorki tjóni né seinkun. „
Helga er búin að vera með í póstkortaklúbbnum frá byrjun, en hún frétti fyrst af GLT hópnum þegar stjórnandi hópsins kom með hóp kvenna til Íslands fyrir nokkrum árum og hitti þar yngri dóttur Helgu.
„SCFP er opinn öllum konum og eru um 2.000 meðlimir í honum núna. Ég var með frá byrjun. Meiri hluti hópsins er í Bandaríkjunum.“
Helga hefur lengi haft ánægju af því að senda póstkort og vera í sambandi við fólk.
„Þegar ég var í 7. bekk kom bekkjarsystir mín með tvo fulla skókassa af bréfum en hún hafði sett inn nafn og heimilisfang í unglingablaðið Vi Unge og óskað eftir pennavini! Ég tók 6 eða 7 bréf og byrjaði á að skrifast á á dönsku. Upp frá því hef ég haft pennavini og sá sem ég haft lengst (þó ekki frá þessum bréfum) er frá Hong Kong og í apríl á næsta ári verða komin 40 ár síðan ég sendi honum mitt fyrsta bréf.
Hann hefur komið þrisvar til Íslands og ég með mína fjölskyldu farið einu sinni til Hong Kong. Ég elska að senda póstkort og vera í sambandi við fólk. Það eykur víðsýni og gefur lífinu lit. Því er það mjög sárt þegar póstkort skemmast, sem getur alltaf gerst, en aldrei eins og með þennan blessaða límmiða frá Póstinum!“