„Guðni Bergsson, formaður KSÍ varð uppvís að alvarlegum missögnum um helgina þegar hann kvaðst í fyrstu ekki kannast við að sambandið hefði fengið tilkynningu um kynferðisbrot landsliðsmanns inn á sitt borð, en varð síðar að viðurkenna að sú hafi verið raunin. Guðni baðst afsökunar á þessum afglöpum sínum, axlaði sín skinn og sagði af sér. Hann er maður að meiri.“
Svona hefst leiðari Fréttablaðsins í dag en ritstjóri blaðsins, Sigmundur Ernir Rúnarsson, skrifar leiðarann. Sigmundur veltir því fyrir sér hvort það sé hægt að kenna Guðna einum um málið. „En er hægt að hengja klúður KSÍ á einn mann? Ber hann einsamall ábyrgð á því hvernig komið er fyrir stærsta sérsambandi íslenskrar íþróttahreyfingar?“ spyr hann og svarar svo spurningunni sjálfur: „Svo er ekki.“
Ljóst er að stjórn KSÍ hefur tekið umræðuna og gagnrýnina til sín að lokum þar sem stjórnin ákvað öll að segja af sér í gærkvöldi. Klara Bjartmarz, framkvæmdastóri KSÍ, ákvað þó að halda starfi sínu.
„Guðni kom til starfa hjá KSÍ fyrir fjórum árum, en árum saman þar á undan hafði sambandið legið undir ámæli fyrir að vera karllægur klúbbur klíkustjórnmála sem hugsaði öðru fremur um hagsmuni karlalandsliða sinna á kostnað kvennaknattspyrnunnar og barnastarfs – og veigraði sér þar fyrir utan að taka á eitraðri karlmennsku innan vallar sem utan,“ segir Sigmundur í pistlinum.
„Hér er um svívirðilega glæpi að ræða. Ekkert annað.“
Sigmundur segir að sambandið hafi verið gagnrýnt fyrir að taka linlega á „málum kvenfyrirlitningar og kvenhaturs“ í gegnum tíðina en að nú sé langlundargeð og þolgæði þjóðarinnar gagnvart kynferðisbrotum af öllu tagi ekki lengur til staðar. „Skömminni hefur verið skilað til gerandans. Þolendur stíga nú fram, hver á fætur öðrum, jafnvel árum og áratugum eftir að þeir voru beittir miskunnarlausu órétti. Og það svíður undan sögunum. Þær lýsa óbærilegum sársauka á líkama og sál,“ segir hann.
„Upplýsingabyltingin á þessu sviði hefur gert það að verkum að allur almenningur hefur áttað sig á alvarleika kynferðisofbeldis. Hann vill ekki að þessum brotaflokki sé tekið af léttúð. Og hann á heldur ekki að þagga niður. Hér er um svívirðilega glæpi að ræða. Ekkert annað.“
„Svo er ekki“
Að lokum segir Sigmundur þetta vera ástæðuna fyrir því að fólk hrekkur við þegar það heyrir af þöggun innan sambandsins. „Það er af þessum sökum sem fólk hrekkur við þegar það heyrir af tilraunum knattspyrnuforystu Íslands til að drepa svona málum á dreif og kefja þau niður, fremur en að bregðast við grunsemdum og vitneskju um kynferðisbrot í samræmi við alvarleika þeirra,“ segir hann.
„Því er spurt: Er líklegt að núverandi stjórn sambandsins sem að hluta er skipuð mönnum sem hafa setið þar í áratugi geti unnið sér traust í þessum alvörumálum sem nú skekja stoðir þjóðarleikvangsins í Laugardal? Svo er ekki.“
Ljóst er að Sigmundur reyndist sannspár þar sem stjórnin sagði af sér skömmu eftir að blaðið fór í prent í gærkvöldi.