Jóhannes Loftsson, verkfræðingur og formaður Frjálshyggjufélagsins, telur Íslendinga hafa beðið meiri skaða af sóttvarnaraðgerðum heldur en af COVID-19. Hann ritar um þetta grein í Morgunblaðið.
„Frá maí fram í nóvember 2020 létust 35 þúsund fleiri Bandaríkjamenn á aldrinum 15-64 ára úr öðru en Covid en í meðalári. Svipuð leitni var víða um lönd. Andlátin eru talin tengjast frestun læknisþjónustu og geðheilbrigði“
Jóhannes bendir á að sambærileg greining hafi ekki átt sér stað hér á landi en þó megi lesa ýmislegt úr tilraunatölfræði Hagstofunnar um andlát.
„Andlát yngri en 55 ára eru mjög óvenjuleg. Frá lokum júní 2020 fram yfir fyrstu 9 vikur 2021 (8,5 mánuðir) hafa 33 fleiri látist á þessum aldri en meðaltal þeirra þriggja til fjögurra ára á undan sem tilraunatölfræðin nær til. Þar af urðu 26 umframandlát bara frá júnílokum fram í september (3 mánuðir), sem er 54% aukning og samsvarar einu viðbótarandláti þriðja hvern dag. Meðalaldurinn var ekki nema 38 ár.“
Til samanburðar nefndir Jóhannes að meðalaldur þeirra sem létust úr Covid á Íslandi var um 85ár.
„Mælt í töpuðum lífárum er skaði þessara andláta sem mögulega má rekja til sóttvarnaaðgerða orðinn tífaldur á við skaða sjúkdómsins Covid-19″
Jóhannes fettir einnig fingur út í það að hér á landi hafi aldraðir fengið bóluefni nánast um leið og það barst fyrst til landsins en þá hafi ekki legið fyrir neinar mælingar um virkni eða öryggi efnisins fyrir svo viðkvæman hóp. 17 dögum eftir fyrsta bólusetningardaginn var búið að tilkynna 7 andlát bólusettra.
„Í gögnum sem keypt voru frá Hagstofunni sést að andlátum eldri en 85 ára þessa 17 daga fjölgaði um 20% miðað við meðaltal síðustu fjögurra áramóta á undan. Þetta eru 10,5 fleiri andlát en meðaltalið og 4 fleiri en mest hafði orðið fram að þessu“
Jóhannes rekur að bóluefnin hafi ekki verið nægilega rannsökuð þegar bólusetningar hófust og hafi margar aukaverkanir verið tilkynntar auk þess sem að dýraprófanir sýni fram á að bóluefni hafi eiturvirkni í líkamanum.
Staðan á Landspítalanum, einkum bráðamóttökunni, hafi verið slæm áður en faraldurinn hófst. Skýrsla sænskra sérfræðinga hafi komið út í febrúar 2020 og þar verið ráðlagt að sjúklingar væru ekki látnir bíða lengur en 6 klst á bráðadeildinni.
„Covid-aðgerðir hafa haft mikil áhrif á þetta ástand. Skaðinn vegna Covid-aðgerða innan spítalans er því miklu margslungnari en nokkurn órar fyrir og heilsu og lífi fjölda manns hefur verið fórnað með því að bregðast ekki við ráðgjöfinni.“
Jóhannes telur nauðsynlegt að birta rannsókn landlæknis á andlátum eftir bólusetningu elliheimilanna og einnig þurfi að gera ýtarlega rannsókn til að meta hvort aukin tíðni andláta væri hjá bólusettum stuttu eftir bólusetningu.