Elísabet Anna Hermannsdóttir og fjölskylda hennar eru að missa húsnæði sitt á Patreksfirði og fá ekki inni annars staðar. Þó standa mörg hús auð í bænum. Elísabet er gift og á 18 mánaða stúlkubarn. Patreksfjörður er heimabær hennar og hún óskar sér einskis frekar en að fá að búa þar áfram. Staðan er hins vegar orðin sú að litla fjölskyldan neyðist til að leita sér að heimili í öðru bæjarfélagi.
„Við erum að leita á öðrum stöðum en okkur langar ekkert að fara frá Patreksfirði,“ segir Elísabet í stuttu spjalli við DV. „Það eru ekki allir í stöðu til að kaupa,“ segir hún ennfremur, enda er ekki hægt að standa í húsnæðiskaupum fyrr en fólk getur reitt fram töluverðar fjárhæðir af sparnaðí.
Elísabet segir að mörg hús standi auð á Patreksfirði en eigendurnir vilja ekki leigja henni. „Allt of mikið húsnæði hér sem stendur tómt allan ársins hring nema kannski eina helgi á ári,“ segir hún.
Elísabet fer yfir málið í opinni Facebook-færslu, þar segir:
Núna erum við fjölskyldan að fara missa heimilið okkar 1. september og við höfum engan stað til að fara á.
Það eru fullt af tómum íbúðum hér sem aðkomufólk á sem þau nota kannski eina helgi á ári og ekkert af þeim tilbúið að leigja manni i skammtímaleigu … þótt það væri ekki nema bara þangað til við finnum eitthvað annað.
Vesturbyggð vill ekkert hjálpa okkur , samt eru þau með tóma íbúð eða íbúðir en segja að þær séu ekki íbúðarhæfar.. eins og okkur sé ekki sama hvort íbúðin sé ekki fullkomin , við þurfum bara stað til að búa á með dóttir okkar.
Við erum ekki i þeirri stöðu til að kaupa, annars værum við búin að því og núna sjáum við bara fram að það að þurfa yfirgefa heimabæinn okkar og fjölskyldu. Þetta er svo asnalegt að það nær engri átt. Ég er búin að eyða síðustu vikum í að leita og leita eins og ég get og hef hringt i ótal margt fólk en ENGINN getur hjálpað okkur… ekki ein einasta manneskja.
Við höfum verið mjög ánægð her síðan við fluttum aftur heim 2019 og dóttir mín búin að alast her upp síðan hún fæddist og þekkir hún ekkert annað. Núna þurfum við að flytja burt frá okkar nànasta fólki og dóttir mín þarf að flytja i burtu frá ömmu sinni , frænku sinni , langafa og ömmu.
Finnst fólki þetta bara i lagi ?? Ég er búin að gráta úr mér augun oftar en ég kæri mig um en ég er bara búin á því andlega, að heimafólk fái ekki íbúð til að búa í finnst mér bara fyrir neðan allar hellur en svo eru aðkomufólk og útlendingar i öðru hverju húsi..
Er i alvörunni enginn sem getur hjálpað okkur?
Mig langar ekkert að fara héðan en það er bókstaflega verið að bola manni burt.“