Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að sú þróun mála í umræðu um kynferðisbrot að tilteknir einstaklingar séu teknir fyrir á samfélagsmiðlum sé óæskileg. Hann segir:
„Að sumu leyti er því kominn nýr farvegur til þess að stíga fram í kjölfar metoo. Við viljum aftur á móti ekki sjá málum háttað á þessum grundvelli sem er að blasa við okkur núna, þetta er ekki réttarríkið sem við sjáum fyrir okkur í siðuðu samfélagi. Að hópur einstaklinga taki sig saman gegn einum nafngreindum einstaklingi með aðstoð samfélagsmiðla þar sem aðeins önnur hliðin kemur fram og ekki er unnt að svara fyrir ásakanirnar. Við viljum að þegar mál af þessu tagi koma upp séu þau uppi á yfirborðinu og jafnræðis gætt. Maður skilur þolendur samt mjög vel því þeir virðast ekki sjá annan farveg til að lýsa reynslu sinni. Þetta segir okkur til um það hvernig ferli mála af þessu tagi er háttað í samfélaginu.“
Helgi segir að öllu ægi saman í þessari umræðu, jafnt vægum atvikum sem alvarlegum afbrotum:
„Það er ekki nokkur leið fyrir okkur að segja til um hvað sé í sjálfu sér þarna á ferðinni. Þetta er eitthvað sem gerist á milli tveggja einstaklinga fyrst og fremst. Öllu grautað saman í umræðunni, sumt alvarleg brot, en annað mögulega frekar ámælisvert eða siðferðislega rangt og er óþægileg lífsreynsla sem fólk er ekki endilega að kæra.“
Helgi segir að það vanti nýtt millistig í dómskerfinu þar sem hægt er að gera upp kynferðisbrot af vægari taginu eða óþægilega upplifun þolenda sem þó sé ekki tilefni til kæru. Sér hann þar frekar fyrir sér ákveðna sáttamiðlun en refsidóma:
„Þarna er einhver reynsla sem æpir á mann að ekki sé hægt að vinna úr í gegnum réttarkerfið einkum vægari kynferðisbrot. Réttarríkið er byggt á ákveðnum meginreglum sem kemur svo í ljós að er mjög þröngt nálarauga fyrir reynslu einstaklinga af þessu tagi þar sem til að mynda tveir aðilar eigast við með ólíka upplifun. Því veltir maður fyrir sér hvort það vanti ekki eitthvað millistig, ákveðna sáttamiðlun eða borgarlegt úrræði, sem hægt er að leita til án þess að fara beinlínis inn í þetta hefðbundna réttarkerfi til þess að leita sátta.“