Yfirlæknir réttargeðdeildar á Kleppi segir réttindi brotin á manni sem situr fastur á deildinni vegna úrræðisleysis kerfisins, þetta kom fram í fréttatíma RÚV í gær. Maðurinn hefur verið lokaður inni síðan 2017 og hafa ættingjar barist fyrir því að hann fái viðeigandi úrræði þar sem hann fái þá þjónustu og þau mannréttindi sem hann á rétt á.
Maðurinn sem um ræðir er með heilaskaða en ekki skilgreindan geðsjúkdóm. Í fréttatímanum kom einnig fram að velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafi vísað málinu frá sér þar sem öryggisvistanir heyri undir ríkið.
Velferðarsvið hefur nú sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins, þar sem gagnrýnt er að RÚV hafi ekki leitað viðbragða sviðsins við vinnslu fréttarinnar.
„Að gefnu tilefni vill velferðarsvið Reykjavíkurborgar árétta að þjónusta við einstaklinga sem þurfa öryggisvistun heyrir undir ríkið.
Í frétt RÚV af máli einstaklings sem þarf á öryggisvistun að halda, sem birtist 12. júlí, kom fram að Reykjavík hafi „vísað málinu frá sér“ og „útvistað málinu til ríkisins“. Þessu er haldið fram í fréttinni, án þess að leitað hafi verið viðbragða velferðarsviðs vegna málsins.“
Velferðarsvið bendur á að samkvæmt lögum heyri öryggisvistun undir ríkið, en um sé að ræða sérhæft úrræði fyrir einstaklinga sem geta verið hættulegir sjálfum sér og öðrum.
„Á tímabilinu maí 2018 til 1. mars 2021 tók velferðarsvið að sér að reka öryggisvistun í Rangárseli með samningi við félagsmálaráðuneytið. Þá kom fljótt í ljós að það skorti lagaheimildir til að viðhafa nauðsynlegar öryggisráðstafanir og kallaði velferðarsvið ítrekað eftir því að skýr rammi yrði settur um öryggisvistanir með setningu laga og reglugerðar.“
Á vegum Reykjavíkurborgar sé veitt búseta á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélag og laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
„Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur lagt metnað í að veita fötluðum einstaklingum þann stuðning sem á þarf að halda í viðeigandi húsnæði frá því að málaflokkurinn kom yfir til sveitafélaga frá ríkinu árið 2011.“
Velferðarsvið rekur í yfirlýsingunni að í dag búi í Reykjavík 462 einstaklingar í húsnæði fyrir fatlað fólk og þar af 185 með geðfötlun. Mikil uppbygging hafi átt sér stað í úrræðum fyrir þessa aðila.
„Margir þeirra geðfötluðu einstaklinga sem búa í húsnæði fyrir fatlað fólk í Reykjavík hafa haft lögheimili í öðrum sveitarfélögum við komuna á geðdeild og hafa með aðstoð Landspítalans breytt um lögheimili, í von um að fá viðeigandi húsnæði og þjónustu sem fyrst.“
Því hafnar velferðarsvið þeirri fullyrðing yfirlæknis réttargeðdeildar að sveitarfélagið standi sig ekki nægilega vel.
„Velferðarsvið hafnar því þeirri fullyrðingu yfirlæknis réttargeðdeildar Landspítalans, í frétt RÚV þann 13. júlí, að sveitarfélagið standi sig ekki nægilega vel í uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk. Í sömu frétt kemur fram að fimm útskriftarfærir einstaklingar bíði á réttargeðdeild eftir þjónustu hjá Reykjavíkurborg. Þetta er ekki rétt. Reykjavíkurborg ber ábyrgð á að útvega þremur einstaklingum sem nú dvelja á öryggis- og réttargeðdeild húsnæði og stuðning. Af þeim þremur sem Reykjavíkurborg ber ábyrgð á hefur einn þegar fengið húsnæði úthlutað. Hinir tveir sem bíða þjónustu eru nýlega útskriftarhæfir og má gera ráð fyrir að þeir fái húsnæði og viðeigandi stuðning í haust.“
Miðað við núgildandi lög eigi öryggisvistun heima á sviði refsivörslukerfisins með aðkomu heilbrigðiskerfisins en nú sé unnið að heildarendurskoðun laganna hjá félagsmálaráðuneytinu.
„Sú vinna felur meðal annars í sér að lög verði samin um öryggisgæslu og öryggisvistun, þar sem skilgreind verða hlutverk og aðkoma ríkis og sveitarfélaga að framkvæmd þjónustunnar. Þá munu þau líka fela í sér að sú stofnun sem fyrirhugað er að setja á laggirnar geti tekið að sér að veita þeim notendum félagsþjónustunnar, sem þurfa á tímabundinni öryggisvistun að halda, þjónustu, með það að markmiði að þeir geti að henni aflokinni nýtt sér þjónustu sveitarfélaga.
Velferðarsvið fagnar þeirri vinnu og telur brýnt að vinnu við frumvarpsgerð verði hraðað og frumvarp til laga um öryggisgæslu og öryggisvistun verði lagt fram á Alþingi hið fyrsta. „