fbpx
Sunnudagur 06.júlí 2025
Fréttir

Yfirgefin og hrædd á fæðingarstofu á Akureyri – „Hvernig getur heilbrigðiskerfið brugðist svona?“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Mánudaginn 28. júní 2021 14:13

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyla Gimanez Gallego ætlaði aldrei að eiga barn sitt hér á Íslandi. Hún kemur frá Spáni og vildi fæða barn sitt þar, umvafin vinum og fjölskyldu. En COVID-faraldurinn setti, hjá henni líkt og hjá svo mörgum öðrum, strik í reikninginn. Hún þurfti því að fæða barn sitt á Akureyri þar sem hún hefur verið búsett undanfarin fjögur ár. Hún kom til Íslands upphaflega sem au-pair hjá íslenskri fjölskyldu sem hún ílengdist hjá og varð hluti af.

Þó Akureyri sé einn stærsti bær landsins er hann ekki ýkja stór í augum Eylu, enda búa um 47 milljónir manns á Spáni samanborið við tæplega 400 þúsundin sem eru búsett hér á Íslandi. Akureyri er því smábær í alþjóðlegum samanburðinum.

Eyla bjóst við að vel yrði tekið á móti henni á Sjúkrahúsinu á Akureyri, og vel haldið utan um hana og ófætt barn hennar.

En annað kom á daginn.

Vildu ekki grípa inn í 

„Ég var með hríðar allt í allt í 38 klukkustundir en það hefði ekki átt að vera þannig. Ég missti vatnið klukkan 10 um morguninn þann 4. maí,“ segir Eyla. Hún leitaði í kjölfarið á sjúkrahúsið en var send aftur heim og sagt að snúa aftur þegar hríðarverkirnir væru verri.

Tíu klukkustundum síðar leitaði hún þó aftur á sjúkrahúsið, uppgefin af verkjum og bað um að gripið yrði inn í.

„Ég spurði þá hvort ekki væri hægt að grípa inn í ferlið, setja mig af stað, þar sem ég hafði þarna verið með hríðar í tíu klukkustundir og ekkert að gerast. Þá var mér sagt að það væri ekki gripið inn fyrr en eftir 24 klukkustundir.

Ég spurði þá hvers vegna þeir vildu frekar að ég eyddi heilli nótt í þjáningar með stöðugar hríðar í stað þess að hjálpa ferlinu áfram og hjálpa mér að fæða barn mitt. Þá var mér sagt að þetta væri stefnan hjá þeim.“

Morfín til að slá á verkina

Eyla segir sjúkrahúsið hafa gefið sér morfín til að slá á verkina, en slíkt er mjög óvanalegt þar sem notkun morfíns og skylda verkjalyfja i fæðingu er mjög umdeild og ætti aðeins að nota í brýnustu nauðsyn. Þrátt fyrir verkjastillingu var þetta löng nótt.

„Augljóslega gat ég ekkert sofið um nóttina og ég var mjög kvíðin“

Morguninn eftir, tæpum sólarhring eftir að Eyla missti vatnið, var enn ekkert að gerast. Þá var Eylu sagt að hún fengi lyf til að setja hana af stað og ætti hún að fá þau innan tveggja klukkustunda. „Ég sagði þeim að ég ætlaði að reyna að leggja mig á meðan ég beið því ég hafði ekkert sofið um nóttina og vildi hafa einhverja orku í fæðingunni.“

En tveimur tímum síðar hafði enginn komið til hennar. Og ekki heldur tveimur tímum eftir það.

„Ég hafði ekki heyrt neitt frá læknunum og enginn hafði vitjað mín svo ég hringdi eftir aðstoð. Þegar ég bað um lækni var mér sagt að að tvær aðrar fæðingar væru í gangi og ég yrði að bíða. „Bíða? Hversu lengi? Hvers vegna?“ – spurði ég. „Ég veit það ekki, bara þangað til að það er minna að gera,“ var svarið sem ég fékk.“

Algjörlega yfirgefin

Áfram mátti Eyla því bíða. Ósofinn, með sára verki og án þess að hafa hugmynd um hvort hún fengi einhverja aðstoð.

„ Mér fannst ég algjörlega yfirgefin, eins og fæðingin mín væri ekki jafn mikilvæg og hinna tveggja. Síðar um daginn var komið til mín og mér gefið meira morfín en þeir gátu engu svarað um hvenær ég fengi hjálp við að koma fæðingunni af stað. Íslenska fjölskyldan mín hringdi í mig og þarna var ég alveg að brotna saman. Ég sagði þeim hver staðan væri og að ég vissi ekki hvenær sjúkrahúsið hefði tíma fyrir mig þar sem tvær aðrar fæðingar voru í gangi.“

Sem betur fer átti íslenska fjölskyldan hennar skyldmenni sem starfaði á fæðingardeildinni og fékk sú leyfi til að koma og gefa Eylu lyfið til að koma fæðingunni af stað. Þegar þarna var komið var klukkan á bilinu 16-17 .

„Þessi frænka kom á sjúkrahúsið og kvartaði undan því að ég hefði verið yfirgefin þarna í sjúkrarúmi tímunum saman. Þarna var klukkan orðin fjögur eða fimm um kvöldið og ekkert að frétta af fæðingunni. Eftir að hún kvartaði kom ljósmóðir til okkar og hún segir okkur allt aðra sögu. Hún segir að þau hafi verið að bíða og sjá hvort fæðingin færi ekki náttúrulega af stað þar sem slíkt væri best fyrir mig og barnið (þvílíkt bull),“ segir Eyla.

Fyrst og fremst átti þetta að vera mín ákvörðun

Hún furðar sig á því að hafa ekki fengið þær upplýsingar og einnig á því að hennar ákvörðun, um að vera sett af stað, hafi verið virt að vettugi .

„Fyrst og fremst átti þetta að vera mín ákvörðun. Ég bað þau um að setja mig af stað og hafði beðið um það kvöldið áður og beðið eftir því síðan þá en greinilega var það aftast í forgangsröð þeirra. Frekar vildu þau stöðva hríðarnar mínar, gefa mér morfín svo ég myndi þegja og leyfa mér svo að dúsa inn á stofu, í algjöru vonleysi. Ég var svo reið og svo hrygg yfir því að svona væri ég að fara að fæða frumburð minn.“

Loksins klukkan níu um kvöldið þann 5. maí var Eyla sett af stað. Þá höfðu liðið 35 klukkustundir frá því að hún missti legvatnið. Eftir að legvatn þungaðra kvenna fer þá eykst sýkingarhætta bæði hjá móður og barni og því er talið að ef fæðing fer ekki náttúrulega af stað innan sólarhrings þá þurfi að gangsetja.

Eftir að Eyla var sett af stað gengu hlutirnir hratt fyrir sig en því miður var Eyla þá komin. með sýkingu. Barn Eylu glímir einnig við afleiðingar af áfalli í fæðingu og sefur ekki á næturnar. Eyla veltir því fyrir sér hvað hafi brugðist og hvernig það megi vera að svona gerist.

„Hvernig getur heilbrigðiskerfið brugðist svona? Ég ætlaði að reyna bara að gleyma þessu, en mér finnst eins og ef ég segi ekkert að þá sé ekkert að fara að breytast og ég óska þess að engin önnur móðir þurfi að ganga í gegnum það sama og ég. Ég skil að þarna voru fleiri konur að fæða, en það sem ég skil ekki er að það geri það að verkum að ég sé hundsuð með öllu. Kannski þarf meira af starfsfólki, einhvern á bakvakt ef fæðingar eru yfir ákveðnum fjölda. Þarna vissu þau að ég var með hríðar, hvers vegna þurfti ég að bíða í næstum tvo heila daga eftir aðstoð?

Ég veit ekki hvað olli því að að hlutirnir fóru eins og þeir fóru en ég veit að þetta þarf að breytast til hins betra. Þess vegna er ég að deila sögu minni.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Julian McMahon látinn

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Húsleitir og handtökur vegna skipulagðrar glæpastarfsemi

Húsleitir og handtökur vegna skipulagðrar glæpastarfsemi
Fréttir
Í gær

Áráttufullur perri í Reykjavík olli konum skelfingu – „Chupa Chupa“

Áráttufullur perri í Reykjavík olli konum skelfingu – „Chupa Chupa“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Edition-hótelinu – Gæsluvarðhald framlengt um fjórar vikur

Harmleikurinn á Edition-hótelinu – Gæsluvarðhald framlengt um fjórar vikur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hart tekist á um Fannborgarreitinn í Kópavogi – Bílastæði séu einhliða tekin af íbúum

Hart tekist á um Fannborgarreitinn í Kópavogi – Bílastæði séu einhliða tekin af íbúum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn mælir með snjóboltaaðferðinni þegar kemur að skuldum heimilisins – „Hefur reynst vel til þess fallin að halda fólki við efnið“

Björn mælir með snjóboltaaðferðinni þegar kemur að skuldum heimilisins – „Hefur reynst vel til þess fallin að halda fólki við efnið“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fölsuðu bréf svo kennarar í Hofsstaðaskóla gætu fengið styrk til Frakklandsferðar – Kenna undirverktaka um

Fölsuðu bréf svo kennarar í Hofsstaðaskóla gætu fengið styrk til Frakklandsferðar – Kenna undirverktaka um
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Bæjarfulltrúi kærði bæjarstjórn Kópavogs til kærunefndar – Gerði í raun athugasemd við sína eigin skipan í ráð

Bæjarfulltrúi kærði bæjarstjórn Kópavogs til kærunefndar – Gerði í raun athugasemd við sína eigin skipan í ráð
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tíu ára bandarísk stúlka lést úr hjartaáfalli í hitabylgjunni í Frakklandi

Tíu ára bandarísk stúlka lést úr hjartaáfalli í hitabylgjunni í Frakklandi