Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, gerir hvatningu umboðsmanns barna til þess að sundkennsla verði endurskoðuð, að umtalsefni í nýrri grein á Vísir.is í dag.
Salvör Nordal, umboðsmaður barna, hefur með bréfi til menntamálaráðuneytisins hvatt til þessarar endurskoðunar, í kjölfar fjölda samtala við börn og ungmenni sem hafa lýst efasemdum um sundkennslu í núverandi mynd.
„Með gagnkvæmri virðingu, sveigjanleika, einstaklingsmiðun og aðlögun er hægt að gera betur. Og það eru kannski mikilvægustu skilaboð til okkar kennara frá því unga fólki sem Umboðsmaður barna hefur hitt: Það þarf að gera betur. Of mörgum líður of illa í sundi. Við þurfum að laga það,“ skrifar Ragnar.
Áskoranir fyrir viðkvæma hópa
Hann bendir á að umboðsmaður kjarni gagnrýni barna í þrjá meginþætti. „Í fyrsta lagi þann að markmið með sundkennslu séu of háleit sem valdi vaxandi vanlíðan hjá þeim börnum sem erfitt eiga með að standa undir þeim. Í öðru lagi að gerðar séu kröfur um sundnám óháð því hvort nemendur hafi náð þeim markmiðum sem unnið sé að eða ekki. Í þriðja lagi að sundkennslu fylgi margvíslegar áskoranir fyrir viðkvæma hópa, til dæmis hinsegin börn, sem of oft bitni á velferð þeirra,“ segir hann.
Ragnar fjallar sérstaklega um að sund sé viðkvæmur vettvangur með tilliti til eineltis og áreitni. „Það er auðvitað alvarlegasti punkturinn. Engin markmið í aðalnámskrá eru svo mikilvæg að fórnarkostnaðurinn megi vera andleg heilsa nemenda. Það er hins vegar ekki alveg einfalt mál að mæta þessu. Jafnvel þótt við upprætum einelti og sköpum öruggt umhverfi (sem er auðvitað frumskylda skóla) verða alltaf til börn sem upplifa sig feimin og óörugg. Hvers vegna að þvinga þau í sund?“
Nemendur eiga ekki að enda í búrum
Og Ragnar heldur áfram.
„Við höfum lengi þekkt þær áskoranir sem fylgja kynþroskanum, útlitsskömm og óöryggi. Frekar nýlega erum við byrjuð að mölva burt tímaskekkju kynjatvíhyggjunnar. Þetta eru allt áskoranir. Það er hins vegar algert grundvallaratriði að skólinn gangi á undan með góðu fordæmi og sé það samfélag sem við erum að berjast við að taki við nemendum að námi loknu. Þar þarf að vera með virkar forvarnir gegn fordómum. Þar þarf hvert barn að upplifa að það eigi tilverurétt. Það þýðir að forðast þarf að líma saman þægindaramma með ótta. Nemendur eiga ekki að enda í búrum – jafnvel þótt þeim líði þar vel.“