Héraðsdómur Vesturlands dæmdi í gær Stefán Gunnar Ármannsson í 9 mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir að hafa svikið um 60 milljónir króna undan skatti við rekstur búvélaverkstæðis síns, Hróar ehf. Stefán var með sama dómi sýknaður af því að hafa þvætt milljónirnar sextíu.
DV greindi frá því í október að gefin hefði verið út ákæra á hendur Stefáni í tveimur ákæruliðum. Annars vegar fyrir skattsvikin og svo fyrir peningaþvætti með því að hafa nýtt ávinning skattsvikanna í rekstur fyrirtækisins.
Brotin áttu sér stað árin 2016, 2017 og 2018. Stefán Gunnar játaði sök hvað skattsvikin varðaði en neitaði að hafa þvætt féð og bar því við að féð hefðu runnið inn í rekstur félagsins til greiðslu launa, launatengdra gjalda og annars rekstrarkostnaðar. Héraðsdómur sýknaði hann af þessum ákærulið, sem fyrr segir.
Stefán var um 12 ára skeið fulltrúi í sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar en í sveitarstjórnarkosningunum 2018 tók hann 14. sæti á lista framboðsins Áfram Hvalfjarðarsveit.
Til viðbótar við skilorðsbundinn fangelsisdóm þarf Stefán að greiða 66 og hálfa milljón í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms, í gær, en sæta ella fangelsi í 12 mánuði.